Saga Netagerðar á Íslandi

Aðfaraorð

Þessi bók er um fiskveiðar og veiðitækni við Ísland frá landnámi til vorra daga.

Netaveiðar hafa verið stundaðar hér við land frá upphafi byggðar. Selveiðar fyrst í stað, og síðar einnig fiskveiðar. Upp úr miðri 18. öld var farið að veiða í þorskanet. Hófst sú veiði í Skagafirði en síðar í Faxaflóa. Það var Skúli fógeti sem kom með fyrstu þorskanetin frá Noregi. Um aldamótin 1900 hófust síldveiðar í nót, og fljótlega upp úr aldamótum komu togarar og hófust þá veiðar í troll. Um það leyti var einnig farið að veiða í snurvoð og ýmiss konar gildrur, einkum við Norðurland og á Austfjörðum.

Skiptar skoðanir voru um þessa þróun netaveiða, sumir óttuðust ofveiði með þessum stórtæku veiðarfærum, aðrir voru á öndverðri skoðun.

Um aldir lærðu menn hver af öðrum listina að ríða net, synir lærðu af feðrum sínum o.s.frv. Það var svo árið 1927 sem netagerð varð löggild iðngrein. Þá var farið að stofna netaverkstæði víða um land þar sem ungt fólk gat komist á samning og fengið starfsheitið netagerðarmaður.

Bylting varð í netagerð þegar farið var að framleiða net úr gerviefnum. Var Hampiðjan frumkvöðull í þeirri framleiðslu hér á landi. Eftir að netagerð varð að iðngrein var stofnað Sveinafélag netagerðarmanna, sem nefnt var Nót. Sá félagið um samningagerð o.fl. fyrir félagsmenn á landsvísu. Með tilkomu fjölbrautaskólanna á áttunda áratug síðustu aldar voru settar fram námskrár sem gerðu kennslu í netagerð hnitmiðaðri.

Þá ber þess að geta að Guðni Þorsteinsson fiskifræðingur var m.a. áhugasamur um alls kyns veiðarfæri og veiðiaðferðir, en hann var ásamt fleirum ötull við að skrifa námskrá fyrir netagerðarmenn, og einnig skrifaði hann bækur og greinar sem voru nytsamlegar við kennslu í framhaldsskólum sem vildu kenna netagerð. Þeir skólar eru Fjölbrautaskóli Suðurnesja í Reykjanesbæ, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum sem kenndi í eina önn, og síðast Fisktækniskólinn í Grindavík en hann sér um kennsluna í netagerð þegar þetta er skrifað. Hjá Fjölbrautaskóla Suðurnesja var smíðaður tilraunatankur sem er notaður við tilraunir með veiðarfæralíkön, en hluti af náminu er líkanagerð sem nemar vinna að í skólanum. Einnig voru skrifaðar nýjar kennslubækur um netagerð sem nýtast vel við fjarnám en stór hluti námsins fer fram í fjarnámi.

Þessi bók getur nýst sem kennslubók við netagerð, og einnig við ýmsa skóla þar sem kennt er ágrip af veiðarfærasögu. Einnig hafa veiðarfærasalar eflaust gagn af ritinu, sem og ýmsir aðrir sem áhuga hafa á sjávarútvegi á Íslandi.

Félag vélstjóra og málmtæknimanna er útgefandi þessarar bókar og fær kærar þakkir fyrir framtakið og sömuleiðis Sigurgeir Guðjónsson sagnfræðingur sem tók að sér að vinna þetta efni; einnig fá aðrir sem komu að verkinu bestu þakkir.

Lárus Þór Pálmason
framhaldsskólakennari og netagerðarmeistari.

Í ritnefnd voru 
Ágúst Ingimarsson, Guðmundur Gunnarsson og Lárus Þór Pálmason

Hér er hægt að lesa söguna á pdf formi