Starfslýsingar

Starfslýsingar á þessari síðu eru sóttar á Bendil.is, sem er mats- og upplýsingakerfi sem m.a. má nota til að afla upplýsinga um nám og störf. Með því að fara á umræddan vef og velja “Skoða starfslýsingar” má sjá nánari lýsingar á þessum störfum.  

Netagerðarmaður

Starfar á veiðafæraverkstæði, á bryggju eða um borð í skipi að framleiðslu og viðhaldi á veiðarfærum, sem búin eru til úr netaefni sem ýmist er framleitt í vélum eða hnýtt í höndum, t.d. lagnetum, botnvörpum, dragnótum, flotvörpum, hringnótum og reknetum.

Málmsteypumaður

Steypir vélarhluti, brunnlok og niðurföll, potta og pönnur, listmuni og skreytingar úr málmum og málmblöndum.

Málmsuðumaður

Stálsmíði er löggilt iðngrein. Stálsmiðir taka þátt í að smíða skip, brýr, tanka eða önnur stór mannvirki. Auk stórra verkefna smíða stálsmiðir margs konar málmhluti sem notaðir eru til sjós og lands. Stálsmíði skiptist í þrjú sérsvið: stálskipasmíði, stálmannvirkjagerð og málmsuðu. Stálskipasmiðir vinna við byggingu og viðhald stálskipa. Stálmannvirkjasmiðir vinna við byggingu og viðhald stálgrindahúsa, mastra, brúa og vélahluta. Málmsuðumaður vinnur, eins og nafnið bendir til, aðallega við málmsuðu, en það er faggrein í örri þróun og miklar kröfur eru gerðar til. Stálsmiður þarf að ráða yfir haldgóðri þekkingu á tölvum auk góðrar þekkingar á þeim málmum, vélum og verkfærum sem hann vinnur með.

Vélstjóri

Stjórnar vélbúnaði og sér um viðhald og viðgerðir um borð í skipi eða í landi í frystihúsi eða verksmiðju eða vinnur í verslun sem selur vélar og vélbúnað.

Blikksmiður

Starfar í blikk- eða stálsmiðju við að smíða og setja upp húsklæðningar, loftræstikerfi og aðra hluti úr þunnmálmum og málmblöndum og í sumum tilvikum plasti.

Rennismiður

Smíðar og gerir við málmhluti í vél- og tækjabúnað; starfar á renni- og / eða vélaverkstæði.

Vélsmiður/vélvirki

Smíðar, setur upp og sér um viðhald og viðgerðir á vélbúnaði í iðnfyrirtækjum, verksmiðjum og virkjunum, sem og skipum og vinnuvélum eða þar sem þess gerist þörf og smíðar varahluti ef því er að skipta.