Sjúkradagpeningar

Upphæð sjúkradagpeninga miðast við 90% af meðaltali heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af síðustu 6 mánuði fyrir veikindi, slys eða launataps vegna umönnunar, að hámarki kr. 1.050.000. Heimilt er að miða við 12 mánaða tímabil hafi tekjur sjóðfélaga breyst verulega til hækkunar eða lækkunar á tímabilinu.

Sjúkradagpeningar frá Sjúkratryggingum Íslands koma til viðbótar greiðslu úr sjúkrasjóði.

Heimilt er að fjárhæð sjúkradagpeninga taki mið af iðgjaldsprósentu ásamt veikinda- og slysaréttarákvæðum viðkomandi kjarasamnings.

Missi sjóðfélagi atvinnuleysisbætur vegna veikinda á hann rétt á sjúkradagpeningum úr sjúkrasjóði að sömu upphæð og atvinnuleysisbætur.

Tímalengd sjúkradagpeningagreiðslu

Sjúkradagpeningar vegna launataps sjóðfélaga eru greiddir í allt að 150 daga eða í 5 mánuði á hverju 12 mánaða tímabili.(Tók gildi 14.09.18)

Dagpeningar í veikinda- og slysaforföllum barna og maka greiðast að hámarki í 90 daga að loknum greiðslum skv. ákvæðum kjarasamninga.

Heimilt er að greiða dagpeninga vegna meðferðar við áfengis- og/eða fíkniefnasýki í sama dagafjölda og meðferð stendur yfir. Fjöldi meðferða sem greitt er fyrir geta ekki orðið fleiri en tvær á hverju fimm ára tímabili.

Samanlagður fjöldi daga sbr. ofangreint getur þó ekki verið meiri en 150 dagar á 12 mánaða tímabili. Hafi réttur verið fullnýttur endurnýjast hann þegar iðgjald hefur verið greitt í 12 mánuði.

Hvenær greiðast sjúkradagpeningar ekki?

Sjúkradagpeningar greiðast ekki þegar bótaskylda vegna slyss eða atvinnusjúkdóms fellur á tjónvald og bætur fást greiddar skv. skaðabótalögum úr hendi hans eða á grundvelli ábyrgðartryggingar.

Sjúkradagpeningar greiðast ekki, þegar um varanlega örorku eða ellihrumleik er að ræða. Réttur til sjúkradagpeninga og annarra greiðslna úr sjóðnum fellur niður sé þeirra ekki vitjað innan 12 mánaða frá því að rétturinn stofnaðist.

Umsóknir og fylgiskjöl

Allar umsóknir skulu ritaðar á þar til gerð eyðublöð sem sjóðstjórn lætur í té og skal þeim fylgja:

  1. Sjúkradagpeningavottorð frá lækni sem tilgreinir hvenær og hvers vegna viðkomandi verður óvinnufær.
  2. Vottorð vinnuveitanda um hvenær samningsbundnum launagreiðslum lýkur.
  3. Önnur gögn sem fram koma á umsóknareyðublaði.

Sjúkradagpeningar eru staðgreiðsluskattskyldir og af þeim er einnig greitt félagsgjald. Hægt er að sækja um sjúkradagpeninga með rafrænum skilríkjum hér. Fyrirspurnir er hægt að senda á Elínu Sigurðardóttur (elin@vm.is.), umsjónarmann Styrktar- og sjúkrasjóðs VM.

Fyrirvari um ábyrgð varðandi meðferð umsókna/gagna með netpósti: Vinsamlega athugið að notkun netpósts er ekki örugg leið gagna og VM ábyrgist ekki öryggi trúnaðarupplýsinga sem eru sendar í gegnum netpóst. Sé um viðkvæmar upplýsingar að ræða, er öruggast að koma með þær á skrifstofu félagsins í eigin persónu.