Undanþágur vélstjóra
Þann 1. janúar 2023 tóku gildi ný lög um áhafnir skipa (nr. 82/2022). Með þeim lögum urðu þær breytingar að undanþágu- og mönnunarnefnd voru lagðar niður. Nefndirnar voru skipaðar fulltrúum útgerðaraðila ásamt fulltrúum vélstjóra og stýrimanna, auk formanns sem ráðherra skipaði.
Með þessum breytingum færast verkefni nefndanna til Samgöngustofu.
10. grein laga um áhafnir skipa er um undanþágur.
Í undantekningartilfellum og þegar einstaklinga með tilskilin skírteini vantar til starfa getur Samgöngustofa, telji hún að öryggi mannslífa, eigna eða umhverfis verði ekki stefnt í hættu, veitt einstaklingi undanþágu til að gegna stöðu á tilteknu skipi þótt hann hafi ekki tilskilin réttindi.
- Undanþágu í umrædda stöðu má þó ekki veita lengur en til sex mánaða enda sé viðkomandi að mati Samgöngustofu hæfur til að annast starfið á öruggan hátt.
- Undanþáguna má aðeins veita þeim sem hefur skírteini til að gegna næstu lægri stöðu eða hefur lokið tilskildu námi til öflunar skírteinis í þá stöðu sem sótt er um undanþágu fyrir.
- Ef ekki er krafist skírteinis í næstu lægri stöðu má veita þeim undanþágu sem að mati Samgöngustofu hefur til þess þekkingu og reynslu.
Við mat á tímalengd undanþágu skal til að mynda horft til forsendna þess að undanþága er veitt, hvort hún er tilkomin vegna skorts á einstaklingum með tilskilin réttindi eða hvort einstakling skortir tiltekinn siglingatíma til að öðlast tilskilin réttindi, hvort umsækjandi sé í námi til öflunar réttinda og framvindu náms.
Undanþágu má ekki veita til að gegna stöðu skipstjóra eða yfirvélstjóra nema í neyðartilvikum og þá aðeins í sem skemmstan tíma. Undanþágu má ekki veita sem fer gegn ákvæðum alþjóðasamþykktanna.