Saga VM

VM Félag vélstjóra og málmtæknimanna er meðal stærstu fag- og stéttarfélaga landsins. Vélstjórar og málmiðnaðarmenn eiga margt sameiginlegt bæði í námi og á vinnumarkaði. Nám þeirra skarast að hluta og málmiðnaðarmenn og vélstjórar starfa iðulega á sömu vinnustöðum.

VM varð til við sameiningu Vélstjórafélags Íslands og Félags járniðnaðarmanna. Stofnfundur var haldinn 14. október 2006, á Grand Hótel í Reykjavík.

Í júnímánuði árið 2004 ákváðu stjórnir félaganna að láta kanna möguleika á samstarfi eða sameiningu félaganna. Niðurstaða þeirrar athugunar var að skynsamlegt væri að sameina félögin, út frá skoðun á helstu þáttum í starfsemi þeirra og með hliðsjón af ætlaðri starfsemi sameinaðs félags.

Vélstjórafélag Ísland og Félag járniðnaðarmanna höfðu bæði starfað um langt skeið. Félag járniðnaðarmanna var stofnað árið 1920, en Vélstjórafélagið árið 1909. Vélstjórafélagið var landsfélag með um helming félagsmanna starfandi til sjós og helming félagsmanna starfandi utan höfuðborgarsvæðisins. Nær allir félagsmenn höfðu lokið einhverju stigi vélstjórnarnáms. Félag járniðnaðarmanna var með félagssvæði á höfuðborgarsvæðinu og til austurs að A-Skaftafellssýslu. Um 85% félagsmanna eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Félagsmenn voru með fjölbreytta menntun og reynslu, um 800 félagsmenn með sveinspróf í málmiðn og þar af yfir 500 vélvirkjar.

Félag járniðnaðarmanna var aðili að Samiðn og þar með að Alþýðusambandi Íslands og Norræna málmiðnaðarsambandinu. Vélstjórafélagið var aðili að Norræna vélstjórasambandinu og Alþjóða flutningsverkamannasambandinu.