Lög VM

Lög VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna (pdf)

Kafli I – Nafn og tilgangur

1. gr. Nafn félagsins, varnarþing og félagssvæði
Félagið heitir VM – Félag vélstjóra og málmtæknimanna. VM er stéttar- og fagfélag.
Lögheimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Félagssvæðið er Ísland.

2. gr. Tilgangur
Tilgangur félagsins er að:
   1. Semja um kaup og kjör félagsmanna og gæta hagsmuna þeirra.
   2. Vinna að atvinnumálum og bættu vinnuumhverfi félagsmanna.
   3. Efla faglega og félagslega þekkingu og hæfni félagsmanna.

3. gr. Stjórnmálaafskipti
Félagið er óháð stjórnmálaflokkum og styður engan stjórnmálaflokk.

Kafli II – Félagsmenn

4. gr. Félagsaðild
Félagið er opið öllum sem lokið hafa viðurkenndu vélstjórnarnámi, iðnnámi í málm- og véltæknigreinum, bílgreinum, veiðafæragerð, báta- og skipasmíði svo og námsmönnum og öðrum þeim sem starfa í greinunum.
Félagsmenn geta einnig orðið þeir sem vinna að málefnum félagsins og aðrir sem stjór metur hæfa hverju sinni.

5. gr. Félagsmenn
Fullgildir félagar eru þeir einir sem hafa sótt um inngöngu í félagið og greitt hafa félagsgjald.
Þeir sem greiða til félagsins, en óska ekki eftir inngöngu í félagið, teljast aukafélagar.
Aukafélagar hafa sömu réttindi og fullgildir félagar að undanskildum atkvæðisrétti og kjörgengi.

6. gr. Innganga
Umsækjendur um félagsaðild óska aðildar með skriflegri inntökubeiðni. Stjórn félagsins er þó heimilt að hafa annan hátt á eftir atvikum.
Umsóknir sem uppfylla kröfur félagsins um inntöku eru staðfestar af félaginu. Leiki vafi á hvort umsækjandi uppfylli kröfurnar tekur stjórn félagsins umsóknina fyrir.
Þegar umsækjandi hefur verið tekinn í félagið er hann bundinn af lögum þess og samþykktum.
Hann fær félagsskírteini sem veitir honum full félagsréttindi og aðgang að fundum félagsins.

7. gr. Úrsögn
Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og afhent skrifstofu félagsins.
Enginn getur sagt sig úr félaginu eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst eða ákvörðun um vinnustöðvun tekin af félaginu og þar til að vinnustöðvun hefur verið aflýst.
Úrsögn úr félaginu hefur ekki áhrif á greiðsluskyldu félagsgjalda vegna þess tíma sem félagsmaður var í félaginu.

8. gr. Brottvikning
Stjórn félagsins getur áminnt eða vikið úr félaginu félagsmanni sem að hennar áliti brýtur lög félagsins, samninga þess eða vinnur gegn hagsmunum félagsins. Ákvörðun stjórnar má vísa til félagsfundar en í báðum tilvikum þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða til samþykkis.
Brottvikningu er eingöngu beitt þegar sakir eru miklar eða brot sem hefur verið áminnt fyrir áður er ítrekað.
Félagsmaður, sem er vikið úr félaginu, á ekki kost á inngöngu að nýju nema stjórn eða félagsfundur samþykki inngöngu.
Hafi félagsmaður ekki greitt félagsgjald síðastliðna 12 mánuði, skal nafn hans numið af félagaskrá, nema hann tilgreini ástæður sem stjórn félagsins tekur gildar. Áður en félagsmaður er tekinn af félagaskrá skal honum tilkynnt það bréflega með eðlilegum   fyrirvara.

Kafli III – Réttindi og skyldur félagsmanna

9. gr. Réttindi
Réttindi félagsmanna eru:
1. Forgangsréttur til starfa í samræmi við starfsréttindi, kjarasamninga og lög.
2. Málfrelsi, tillögu- og atkvæðaréttur á fundum félagsins og við allsherjaratkvæðagreiðslur ásamt kjörgengi til  trúnaðarstarfa.
3. Réttur til styrkja úr sjóðum félagsins samkvæmt reglum þeirra sjóða.
4. Réttur til orlofsaðstöðu samkvæmt reglum um orlofssjóð.
5. Þátttaka í fræðslustarfi á vegum félagsins.
6. Upplýsingar um launakjör, atvinnuréttindi og atvinnumöguleika.
7. Þjónusta og aðstoð félagsins við að ná fram samnings- og félagsréttindum.

10. gr. Skyldur
Skyldur félagsmanna eru að:
1. Hlíta lögum félagsins, fundarsköpum og fundarsamþykktum og samningum.
2. Greiða félagsgjald.
3. Gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið nema sérstakar ástæður hamli.
4. Tilkynna til félagsins brot á samningum.
5. Vinna af heilindum fyrir félagið.
6. Stuðla að því að ófélagsbundnir menn gangi í félagið.

Kafli IV – Stjórn, fulltrúaráð og nefndir

11. gr. Stjórn
Stjórn félagsins er skipuð 9 mönnum sem eru formaður og 8 meðstjórnendur og er einn þeirra kosinn varaformaður.
Formaður er kosinn til fjögurra ára. Aðrir stjórnarmenn og 8 varamenn eru kjörnir til tveggja ára.
Á fyrsta fundi stjórnar að loknum kosningum kýs stjórnin í leynilegri atkvæðagreiðslu varaformann félagsins úr sínum röðum. Nú tekur varaformaður við störfum formanns og velur þá stjórnin sér nýjan varaformann úr sínum hópi.

12. gr. Störf stjórnar
Stjórn félagsins stýrir málefnum félagsins milli félags- og aðalfunda.
Stjórnin vinnur að stefnumótun fyrir félagið og framgangi þeirra mála sem félagið hefur sett sér að vinna að.
Stjórnin sér til þess að skipulag og starfsemi félagsins sé í góðu horfi og í samræmi við lög félagsins. Hún ber ábyrgð á fjárreiðum og eignum félagsins og sér til þess að fjármál félagsins séu jafnan í góðu horfi. Stjórnin tekur allar meiriháttar ákvarðanir sem snúa að
fjármálum. 
Launanefnd gerir tillögu að launum og starfskjörum formanns og framkvæmdastjóra, sem síðan þarf samþykki stjórnar.
Stjórn félagsins er skylt að sjá til þess að starfsmenn hafi starfslýsingu og ráðningasamning.
Stjórn skal leggja fyrir aðalfund tillögu um stjórnarlaun fyrir komandi ár.
Starfsmenn félagsins aðrir en formaður skulu vera utan stjórnar félagsins.
Stjórn félagsins er skylt að láta löggiltan endurskoðanda endurskoða reikninga og fjárreiður félagsins í lok hvers reikningsárs.

13. gr. Stjórnarfundir
Formaður boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim. Óski þrír eða fleiri stjórnarmenn skriflega eftir því að stjórnarfundur verði haldinn er formanni skylt að verða við þeirri ósk enda sé tilgreint hvert fundarefnið sé.Varaformaður gegnir skyldum formanns í forföllum hans.
Stjórn heldur fundi svo oft sem þörf er á og eru fundir stjórnar lögmætir þegar a.m.k. 7 stjórnarmenn sitja fund. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum um afgreiðslu mála.
Formaður félagsins ber ábyrgð á starfsemi þess í umboði stjórnar.
Formaður sér til þess að fundir stjórnar séu skráðir og fundargerðir varðveittar á öruggan hátt.

14. gr. Fulltrúaráð
Í félaginu starfar fulltrúaráð sem er stjórn félagsins til ráðgjafar og stuðnings við ýmis stærri málefni í starfsemi félagsins s.s. stefnumótun, kjarasamninga og meiriháttar framkvæmdir á vegum félagsins.
Fulltrúaráð skal skipað stjórnarmönnum og varastjórn félagsins. Einnig trúnaðarmönnum og tengiliðum félagsins á landsbyggðinni, auk allt að fimm félagsmanna sem stjórn félagsins skipar og skal skipunartími þeirra sá sami og stjórnar.
Formaður félagsins er formaður fulltrúaráðs. Skal hann boða til fundar þess eftir þörfum, þó eigi sjaldnar en tvisvar sinnum á hverju ári.

 15. gr. Starfsnefndir

Fagnefnd sjómanna skal starfsrækt innan félagsins. Hlutverk nefndarinnar felst í umfjöllun um sérstök hagsmunamál sjómanna og að gera tillögur um þau til stjórnar. Fylgjast með kjörum sjómanna í samanburði við aðra hópa og eiga aðild að kjarasamningsgerð vegna sjómanna.
Starfsmaður félagsins skal vera nefndinni til ráðuneytis.
Lífeyrissjóðanefnd skal starfrækt innan félagsins. Hlutverk nefndarinnar er að fjalla um lífeyrissjóðsréttindi félagsmanna og gæta hagsmuna þeirra í lífeyrissjóðakerfinu. Hún gerir tillögur til stjórnar félagsins og um fulltrúa fyrir aðalfundi lífeyrissjóðanna. Starfsreglur nefndarinnar ákveðast af stjórn félagsins. Starfsmaður félagsins skal vera nefndinni til ráðuneytis.
Launanefnd VM er fastanefnd sem starfar allt árið. Launanefnd gerir tillögu að launum og starfskjörum formanns og framkvæmdastjóra, sem síðan þarf samþykki stjórnar. Launanefnd er skipuð þremur stjórnarmönnum sem skuli kosnir á fyrsta fundi stjórnar eftir stjórnarkjör.
Stjórn félagsins er jafnframt heimilt að koma á fót öðrum fag- og starfsnefndum til að vinna að hagsmunamálum félagsmanna og einstakra faghópa í þágu félagsins.

16. gr. Samninganefndir
Stjórn félagsins skipar formenn samninganefnda félagsins vegna þeirra kjarasamninga sem félagið er aðili að í samráði við þá félagsmenn sem starfa eftir viðkomandi samningi.
Aðrir fulltrúar samninganefndar eru valdir af þeim félagsmönnum sem starfa samkvæmt viðkomandi samningi en þeir geta þó falið stjórn félagsins að annast samningagerð.

17. gr. Trúnaðarmenn
Trúnaðarmenn félagsins á vinnustöðum starfa samkvæmt lögum og viðkomandi kjarasamningi. Félagsstjórn skal staðfesta kjör trúnaðarmanna og tilkynna það atvinnurekanda.

18. gr. Deildir
Heimilt er 30 almennum félagsmönnum að stofna svæðisbundna deild innan félagsins, enda eigi allir stofnendur fyrirhugaðrar deildar lögheimili á félagssvæði hennar.
Aldrei getur starfað nema ein deild á hverju svæði og er öllum félagsmönnum sem eiga lögheimili þar heimilt að starfa með deildinni.
  
Megin markmið deildarinnar er að auka tengsl milli viðkomandi félagsmanna og stjórnar félagsins.

Félagsmenn deilda kjósa sér stjórn, formann og tvo meðstjórnendur.
  
Aðalfundur félagsins skal fjalla um stofnun deilda og kanna lögmæti þeirra, félagssvæði og yfirlýst markmið. Samrýmist þau lögum og markmiðum félagsins er aðalfundi heimilt að
samþykkja deildarstofnunina. Aðeins með formlegri staðfestingu aðalfundar má deildin hefja starfsemi.
  
Stjórn deildar getur komið málum á framfæri við stjórn félagsins.

Kafli V – Rekstur og fjármál

19. gr. Framkvæmdastjóri
Stjórn félagsins er heimilt að ráða framkvæmdastjóra til starfa hjá félaginu. Nánar skal kveðið á um störf framkvæmdastjóra í starfslýsingu sem hljóta þarf samþykki stjórnar félagsins.

20. gr. Félagsgjöld
Félagsgjöld eru 0,8% af heildarlaunum.
  
Félagsmenn sem eru hættir störfum vegna aldurs, slysa, veikinda eða örorku greiða ekki félagsgjöld en halda áunnum réttindum samkvæmt lögum félagsins og reglum sjóða félagsins.
  
Stjórninni er heimilt er veita námsmönnum undanþágu til að halda áunnum réttindum á meðan á námi stendur.
  
Þeir félagsmenn sem greiða félagsgjald til annarra félaga af lagalegum ástæðum eða öðrum þeim ástæðum sem stjórn metur fullnægjandi geta fengið undanþágu frá fullum félagsgjöldum en greiða þess í stað ákveðið lágmarksgjald til félagsins sem stjórnin
ákveður árlega. Þessir félagsmenn skulu auðkenndir í félagaskrá. Þeim skal sent allt almennt efni sem gefið er út á vegum félagsins. Réttindi þeirra í sjóðum félagsins fer eftir
ákvæðum sjóða VM.
  
Heiðursfélagar greiða ekki til félagsins en njóta sömu réttinda og fullgildir félagar.
  
Aðalfundur setur reglugerð um kjör heiðursfélaga.

21. gr. Fjármál
Sjóðir félagsins eru Félagssjóður, Sjúkrasjóður, Orlofssjóður, Fræðslusjóður, Vinnudeilusjóður, Akkur og Minningarsjóður VM.
  
Allir sjóðir félagsins, aðrir en Félagssjóður, starfa samkvæmt sérstakri reglugerð sem aðalfundur samþykkir. Í reglugerðum sjóða kemur fram hlutverk þeirra, tekjustofnar, hvernig fé þeirra er varið og sjóðunum stjórnað.
  
Stjórn félagsins ber ábyrgð á eignum félagsins og sér um ávöxtun þeirra sjóða sem ekki hafa sérstakar stjórnir. Stjórn félagsins og stjórnir einstakra sjóða þess skulu ávaxta sjóði á öruggan og hagkvæman hátt.
  
Af félagsgjöldum er greiddur kostnaður við rekstur félagsins og önnur þau útgjöld sem samþykktir félagsins hafa í för með sér. Stjórn félagsins sér til þess að gerðar séu fjárhags- og rekstraráætlanir fyrir starfsemi félagsins og að unnið sé eftir þeim. Stjórnin leitar samþykkis félagsfundar um meiriháttar fjármálaráðstafanir. Tillögur um þær verða einungis teknar til umfjöllunar og afgreiðslu að þeirra hafi verið getið í fundarboði og þeim fylgi skriflegur rökstuðningur þar sem fram kemur bæði nauðsyn fjárfestingarinnar fyrir félagið og mat á fjárhagslegri getu þess til að standa straum af henni.
  
Reikningsárið er almanaksárið.

22. gr. Reikningar
Stjórn félagsins leggur fram reikninga félagsins sem eru endurskoðaðir og áritaðir af stjórn félagsins, framkvæmdastjóra og löggiltum endurskoðanda í lok uppgjörs hvers reikningsárs.
Reikningar félagsins ásamt skýrslu stjórnar eru lagðir fram til skoðunar fyrir félagsmenn á skrifstofu félagsins viku fyrir aðalfund.

Kafli VI – Fundir

23. gr. Aðalfundir
Aðalfundur félagsins er haldinn fyrir lok apríl ár hvert og skal hann boðaður með minnst viku fyrirvara með auglýsingum í blaði félagsins, á heimasíðu félagsins eða öðrum viðurkenndum fjölmiðlum.

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins.
  
   Á aðalfundi eru eftirfarandi mál tekin fyrir:
1. Skýrsla stjórnar.
2. Reikningar félagsins og sjóða.
3. Ákvörðun um löggilta endurskoðendur.
4. Ákvörðun stjórnarlauna.
5. Lagabreytingar og reglugerðir.
6. Lýst kjöri stjórnar.
7. Kjör í nefndir og stjórnir sjóða.      
8. Kjör kjörstjórnar.
9. Kjör uppstillingarnefndar.
10. Önnur mál.
  
Formaður félagsins setur aðalfund og lætur fara fram kosningu fundarstjóra og fundarritara.

Fundarstjóri kannar hvort fundur sé rétt boðaður, sér til þess að fundurinn fari skipulega fram og lögum og samþykktum félagsins sé fylgt.

Aukaaðalfundur er haldinn ef félagsstjórn telur það nauðsynlegt. Allar sömu reglur gilda um boðun og framkvæmd aukaaðalfundar og hinn árlega aðalfund enda hefur hann sama vald.

Á hinum árlega aðalfundi gerir stjórn félagsins grein fyrir starfsemi félagsins á liðnu ári og leggur fram skýrslu um starf félagsins og fjármál með hugsanlegum athugasemdum endurskoðanda félagsins. Reikningar eru bornir undir aðalfund til samþykktar eða synjunar.

24. gr. Félagsfundir
Almennir félagsfundir eru haldnir eins oft og þurfa þykir.
  
Stjórn félagsins er skylt að boða til félagsfundar þegar minnst 50 félagsmenn krefjast þess skriflega og tilgreina dagskrárefni. Félagsfundur telst lögmætur ef hann er boðaður með minnst þriggja daga fyrirvara í dagblöðum og útvarpi eða með skriflegu fundarboði.
  
Stjórn getur boðað til fundar með einstaka starfshópum innan félagsins með skemmri fyrirvara enda er þá fundarboðun þannig að ætla megi að hún nái til allflestra viðkomandi félagsmanna.
  
Lögmætir félagsfundir hafa æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda innan þeirra takmarka sem lögin setja.

Kafli VII – Kosningar

25. gr. Allsherjaratkvæðagreiðsla
Allsherjaratkvæðagreiðslu skal viðhafa:
1. Við kosningu stjórnar.
2. Við kosningu formanns.
3. Við afgreiðslu kjarasamninga eftir nánari ákvæðum laga um stéttarfélög og vinnudeilur.
4. Við slit á félaginu.
5. Þegar lögmætur félagsfundur samþykkir að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu í félaginu um tiltekin mál.
  
Allsherjaratkvæðagreiðsla fer fram með leynilegri rafrænni atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna nema sérstakar ástæður hamli.

26. gr. Kjörstjórn
Kjörstjórn skal vera starfandi í félaginu.
  
Hlutverk hennar er að annast um stjórn atkvæðagreiðslna um kjarasamninga, verkföll og allsherjaratkvæðagreiðslur skv. lögum félagsins.
  
Kjörstjórnin skal kjörin af aðalfundi og í henni skulu eiga sæti tveir menn og tveir til vara. Við stjórnun atkvæðagreiðslna um kjarasamninga og verkföll skipar stjórn félagsins þriðja stjórnarmanninn og skal hann vera formaður kjörstjórnar.
  
Við stjórnun allsherjaratkvæðagreiðslna um önnur atriði skv. lögum félagsins og/eða lögum ASÍ skipar miðstjórn ASÍ þriðja kjörstjórnarmanninn og skal hann vera formaður kjörstjórnar.
  
Kjörstjórn, í samráði við viðkomandi stjórn eða nefnd, ákveður hverju sinni hvort atkvæðagreiðsla skuli fara fram með leynilegri skriflegri atkvæðagreiðslu eða með rafrænum hætti.
   
Kjörstjórn setur vinnureglur um framkvæmd kosninga í samræmi við 27. gr. laga VM um kosningar og 25. gr. laga um allsherjaratkvæðagreiðslur.
  
Meðlimir kjörstjórnar eru bundnir þagnarskyldu um úrslit kosninga þar til þau hafa veriðbirt.

27. gr. Kosningar
Ári áður en kosningar fara fram kýs aðalfundur 7 manna uppstillingarnefnd sem annast uppstillingu manna til formanns og stjórnar eftir því sem við á.
  
Uppstillingarnefnd ræðir allar tillögur sem henni kunna að berast og kappkostar að taka tillit til starfsgreina og landssvæða þannig að stjórn endurspegli breidd félagsins.
  
Þeir einir eru kjörgengir til stjórnar sem hafa greitt hlutfall af launum í félagsgjald síðustu 6 mánuði áður en uppstillingarnefnd lýkur störfum auk heiðursfélaga.
  
Uppstillingarnefnd lýkur störfum eigi síðar en 6 vikum fyrir næsta aðalfund félagsins sem skal í síðasta lagi vera haldinn í lok apríl ár hvert.

Niðurstaða hennar er kynnt á almennum félagsfundi. Aðrar tillögur sem fram koma teljast aðeins gildar að þær hafi verið bornar fram innan þess frests sem kjörstjórn auglýsir og hafi stuðning 20 fullgildra félagsmanna.
  
Við formannskjör er sá frambjóðenda réttkjörinn sem flest atkvæði hlýtur.
  
Við kjör stjórnarmanna og varamanna skal stilla upp 16 félagsmönnum í stafrófsröð. Upphaf stafrófsraðar skal ákveðið með því að draga um upphafsstaf í röðinni.
  
Merkja skal við allt að 8 nöfn á atkvæðaseðlinum með krossi og raðast aðalstjórnarmenn og varamenn eftir atkvæðamagni.

Þeir 8 sem flest atkvæði hljóta í kosningunni eru réttkjörnir aðalstjórnarmenn og sá 9. í röðinni er 1. varamaður stjórnar.

28. gr. Móttaka atkvæða
Kosning skal vera rafræn og skal hefjast eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund. Gæta skal í hvívetna að öll leynd og rekjanleiki atkvæða vegna kosninga sé í samræmi við lögin.

29. gr. Talning atkvæða
Atkvæðagreiðslu lýkur þremur sólarhringum fyrir aðalfund. Kjörstjórn sannprófar lögmæti kosningarinnar og undirbúning hennar. Kjörstjórn fer yfir úrslit kosningar og afhendir fundarstjóra úrslit í lokuðu umslagi sem gerir þau kunn. Heimilt er að upplýsa frambjóðendur til stjórnar um niðurstöður kosningar allt að sólarhring fyrir aðalfund.

30. gr. Hæfi og siðareglur fyrir stjórnir og starfsmenn félagsins

Stjórnarmenn verða að uppfylla almenn hæfisskilyrði samkvæmt lögum þessum til félagsaðildar sem og njóta lögræðis.
Stjórnarmaður víkur sæti við meðferð einstakra mála ef hann hefur persónulegra hagsmuna að gæta eða hagsmuna sem fara í bága við hagsmuni félagsins.
Stjórnarmönnum ber að eigin frumkvæði að gæta að hæfi sínu.
Stjórn skal setja sér, starfsmönnum og stjórnum allra sjóða og nefnda almennar samskipta- og siðareglur.

Kafli VIII – Lagabreytingar

31. gr. Lagabreytingar
Lögum félagsins verður ekki breytt nema á lögmætum aðalfundi og með samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða. Auðir og ógildir seðlar teljast ekki til greiddra atkvæða. Tillögur um lagabreytingar þurfa að berast stjórn félagsins eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund.

32. gr. Réttaráhrif aðildar að ASÍ
Lög Alþýðusambands Íslands eins og þau eru á hverjum tíma eru lögum þessum til fyllingar. Gilda ákvæði þeirra þar sem lögum þessum sleppir en skarist lögin gilda ákvæði laga ASÍ.

33. gr. Slit félagsins o.fl.
Félaginu verður ekki slitið nema 2/3 hlutar greiddra atkvæða í allsherjaratkvæðagreiðslu séu fylgjandi félagsslitum. Auðir og ógildir seðlar teljast ekki greidd atkvæði.
Lokafundur í félaginu ráðstafar sjóðum þess. Þeir verða geymdir þar til nýtt félag myndast sem starfar á sama grundvelli. Það félag skal þá fá umráð eigna að fengnu samþykki miðstjórnar ASÍ.

34. gr. Sameining við annað félag
1. Komi fram tillaga á aðalfundi um að sameina félagið öðru félagi/félögum þarf sama hlutfall greiddra atkvæða og við lagabreytingar til að breytingin taki gildi.
  
2. Ákveði aðalfundur VM að láta fara fram alsherjaratkvæðagreiðslu um sameiningartillögu gildir einfaldur meirihluti greiddra atkvæða.
  
3. Óski annað félag að sameinast VM skal tillaga þar um borin upp á aðalfundi VM. Meirihluti greiddra atkvæða ræður niðurstöðu.

35. gr. Gildistaka
Þannig samþykkt á aðalfundi VM 25. mars 2022.

Lög VM í pdf skjali