Félagsmálafræðsla

Launþegum er það bæði rétt og skylt að kynna sér lög og reglur sem gilda um samskipti launþega og atvinnurekenda.
Með aukinni samkeppni, vegna opnunar markaða og alþjóðavæðingar, hefur vinnumarkaður breytist hraðar en áður. Þessi öra þróun mun valda því að einstaklingar þurfa að skipta oftar um starf á starfsævinni og jafnvel skipta oftar um starfsvettvang. Við þessar aðstæður eru verkefni stéttarfélaga mikilvægari, flóknari og fjölbreyttari en áður.
Þessi þróun á sér stað á sama tíma og viðhorf hafa breyst þannig að einstaklingshyggja ræður nú ríkjum, í stað þeirrar heildarhyggju sem hugmyndafræði stéttarfélaganna byggir á. Þessi staða minnkar á engan hátt mikilvægi stéttarfélaga enda hefur þróunin stóreflt fjármagnseigendur og alþjóðafyrirtæki á kostnað launþega um allan heim.

Stéttarfélag sækir styrk sinn og getu til meðlima sinna. Það er því mikilvægt að félagsmenn taki þátt í starfsemi þess. Vinnubrögð félaganna og starfsaðferðir þróast með breyttum tímum t.d. reiða félögin sig meira á kannanir meðal félagsmanna, til að kanna hug þeirra og sækja upplýsingar um áherslur í starfi, enda býðst margskonar afþreying sem kannski er eftirsóknarverðari en að sækja félagsfundi.

Félagsmálaskóli alþýðu er starfræktur af Alþýðusambandi Íslands og BSRB, en Menningar- og fræðslusamband alþýðu (MFA) fer með rekstur og málefni skólans. Hlutverk hans er að auka þekkingu talsmanna stéttarfélaga og efla þá í starfi til þess að þeir séu betur í stakk búnir að vinna að bættum lífskjörum launafólks.

Félagsmenn geta sótt námskeið Félagsmálaskólans að eigin frumkvæði. Skráning á námskeið fer gegnum félagið. Einnig eru í boði sérnámskeið fyrir afmarkaðan hóp félagsmanna.