2024
Áhugaverð heimildamynd á RÚV 23. janúar
Fréttir

Áhugaverð heimildamynd á RÚV 23. janúar

Íslenska heimildamyndin 60 rið í 78 ár verður sýnd á RÚV þann 23. janúar næstkomandi, klukkan 20:05, á eftir Kastljósi. Um er að ræða mynd eftir Guðmund Lýðsson um sögu raforku á Keflavíkurflugvelli. Myndin fjallar um störf vélstjóra og rekstur rafstöðvar Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og þau víðtæku áhrif sem bygging Steingrímsstöðvar hafði á alla raforkuöflun Íslendinga. Í kjölfarið hófst sala á raforku til varnarliðsins.

Í kynningu á myndinni á vef Víkurfrétta segir að varnarliðið hafi starfað eftir bandarískum rafmagnsstöðlum, 60 riðum og 110 voltum, á meðan íslenska rafkerfið hafi verið rekið á 50 riðum og 220 voltum. Því hafi þurft sérhæfðan búnað til að geta nýtt rafmagn frá Landsvirkjun.

Fram kemur að í heimildaleit fyrir myndina hafi komið í ljós að engar heimildir séu til um ákvarðanir íslenskra yfirvalda í tengslum við sölu á rafmagni til hersins. Fundargerðir Ríkisstjórnar Íslands á árunum 1947 til 1964 finnist ekki.