2023
Fundur Norræna vélstjórasambandsins
Fréttir

Fundur Norræna vélstjórasambandsins

Norræna vélstjórnarsambandið fundaði þann 21. mars sl.. Norðmenn voru gestgjafar fundarins sem haldinn var í Longyearbyen á Svalbarða.  Á fundinum ræddi sambandið nokkur málefni en mest áhersla var á  Pólar kóðann (Polar Code), sem ætlað að ná til allra mála sem er varða siglingar á hafsvæðinu umhverfis pólanna. Í kóðanum eru skilgreindar kröfur um hönnun skipa, smíði þeirra, búnað og rekstur ásamt þjálfun áhafna og leit og björgun. Og ekki síst mikilvægi þess að vernda umhverfi og einstakt vistkerfi á heimskautasvæðunum.

Á fundinum var einnig farið yfir lög, markmið og aðildarsamning sambandsins, ásamt því sem rætt var um alþjóðlegt samstarf og hvernig hægt væri að þróa og styrkja samstarf sambandsins við önnur lönd. Fundir Norræna vélstjórasambandsins eru alltaf fræðandi um málefni vélstjóra á Norðurlöndum og hafa fulltrúar Íslands sótt þangað mikilvægar upplýsingar, bæði á fundum sambandsins og í samskiptum við fulltrúa norrænu félaganna milli funda.

Í fréttatilkynningu frá fundinum minnir sambandið á að áhersla Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) í ár varðandi siglingamál er á MARPOL samþykktina, sem er um varnir gegn mengun frá skipum, sjá MARPOL at 50 – Our commitment goes on. Einnig að Dagur sjófarenda verður þann 25. júní 2023, þar sem m.a. verður vakin athygli á hlutverki vélstjóra og rafvirkja um borð í skipum við að minnka mengun og auka orkunýtingu.

Í fréttatilkynningunni bendir sambandið á eyður í reglum um orkugjafa til framdriftar og stýringar skipa og einnig í reglum um skip með skertri áhöfn og reglum um fjarstýrð skip.

Samkvæmt Alþjóðasamþykkt um öryggi mannslífa á hafinu (SOLAS), kafla II-1, og Alþjóða kóðanum um öryggisstjórnun skipa og mengunarvarnir (ISM Code), kóða 1.2.3 og 6.2.2, er gerð krafa um þátttöku yfirvélstjóra í teymi um valkosti við hönnun og fyrirkomulag skipa, til að tryggja tæknilega þekkingu á öllum rekstri og öryggisþáttum við byggingu skips vegna nauðsynlegra skírteina fyrir notkunarsvið skipsins.

Yfirvélstjóri skipsins er yfirmaður tæknideildar hvers konar skipa. Við hönnun og áhættu- og háskagreiningar skipa á að taka tillit til Samþykktar Sameinuðuþjóðanna (UNCLOS 94) og ábyrgðar yfirvélstjóra á að kröfur SOLAS og MARPOL samþykktanna verði uppfylltar auk krafna vegna eiginleika allra orkugjafa og umhverfishagkvæmni. Til viðbótar þessu þarf að tryggja að allur búnaður um borð og hæfni áhafnar til að tryggja öryggi skipanna, áhafnar, farþega og umhverfisins, er til staðar við allar aðstæður svo forðast megi manntjón og refsivist.

Norræna vélstjórnarsambandið er þeirrar skoðunar að ef við ætlum að ná markmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni, verða pólitísk markmið og tæknilegar staðreyndir að fara saman. Réttlát umskipti verða einnig að tryggja sjálfbæra mönnun á öllum gerðum skipa, auk þess sem tryggja þarf að handhafar atvinnuskírteina hafi kunnáttu til að bregðast við öllu aðstæðum og þar á meðal að taka yfir stjórnun skips, framhjá sjálfstýringum, svo allir komist örugglega aftur til hafnar.

Heimasíða Norræna vélstjórnarsambandsins var nýlega uppfærð og hana má sjá hér.