2024
Sterk hreyfing- sterkt samfélag
Pistlar

Sterk hreyfing- sterkt samfélag

Kæru félagar. Enn á ný hafa vinnandi stéttir á Íslandi tekið höndum saman og gengið á undan með góðu fordæmi. Í vor samþykkti launafólk á almennum markaði, kjarasamninga sem hafa það markmið að leiða til lækkunar vaxta og draga úr verðbólgu, samfélaginu öllu til hagsbóta. Eftir linnulausar verðhækkanir á nauðsynjavörum og mikilvægri þjónustu var það launafólk sem gekk fram fyrir skjöldu og sagði hingað og ekki lengra. Við komum okkur saman um að semja um hófsamar launahækkanir til að freista þess að slökkva í verðbólgubálinu.

Þrátt fyrir að enn eigi eftir að semja fyrir hönd stórra hópa á opinberum markaði hefur línan verið dregin. Nú hermir það upp á Seðlabanka Íslands, fyrirtæki í landinu, ríkið og sveitarfélögin að axla sína ábyrgð; halda aftur af verðhækkunum og berjast gegn verðbólgunni. Ríkisstjórnin þarf að láta af pólitískum skylmingum og einbeita sér að þeim verkefnum sem hún hefur lofað að ráðast í.

Nýleg könnun Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins sýnir svo ekki verður um villst að launafólk hefur sannarlega þurft að bera byrðar. Hærra hlutfall foreldra en áður hefur ekki efni á grunnþáttum fyrir börnin sín. Tæplega fjórðungur einhleypra foreldra býr við efnislegan skort og ríflega sex af hverjum tíu einhleypum mæðrum gætu ekki mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum. Fjörutíu prósent allra svarenda gæti ekki mætt slíkum útgjöldum án þess að stofna til skuldar.

Góðir félagar. Það er átakanlegt að í ríku landi eins og okkar, lifi fólk við þessar aðstæður. Á sama tíma eru bankar, útgerðarfyrirtæki og önnur stórfyrirtæki að greiða sér milljarða í arð. Við erum ríkt samfélag þegar horft er til auðlinda og mannauðs. Það er skiptingin sem er meinið í íslensku samfélagi. Það er aðeins hún sem kemur í veg fyrir að við öll getum notið mannsæmandi lífskjara. Það er nóg til.

Kæru félagar. Barátta verkalýðsfélaga fyrir umbótum hefur bætt lífskjör almennings á Íslandi svo um munar. Þeirri baráttu má aldrei ljúka. Nýliðinn vetur hefur enn og aftur minnt okkur launafólk á að sameinuð eru okkur allir vegir færir. Slagorð dagsins á þess vegna vel við nú sem ætíð áður: Sterk hreyfing – Sterkt samfélag. Við erum sterkari saman.

Stéttarfélögin á Eyjafjarðarsvæðinu óska félagsfólki  til hamingju með alþjóðadag verkalýðsins 1. maí.

Takk fyrir mig.

Ávarp 1. maí-nefndar stéttarfélaganna við Eyjafjörð í tilefni af baráttudegi verkalýðsins. Flutt af Guðmundi Helga Þórarinssyni á Akureyri, 1. maí 2024.