2023
Tilkynning vegna fundar NMF
Fréttir

Tilkynning vegna fundar NMF

Norræna vélstjórasambandið (NMF) fundaði í Þórshöfn í Færeyjum þann 3. október síðastliðinn. Þar voru fulltrúar VM. Að fundi loknum sendi sambandið frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:

NMF leggur áherslu á starfsþróun vélstjóra. Störf á sjó þurfa að vera sýnilegri og eftirsóknarverðari starfsvettvangur fyrir yngri vélstjóra. NMF telur nauðsynlegt að skapa sveigjanlegri umgjörð um störf á sjó og jafnframt gera vélstjórum mögulegt að haga vinnufyrirkomulagi sínu eftir þörfum hvers og eins, svo vinnuumhverfi þeirra standist samanburð við kollega þeirra á landi.

Í samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um vinnuskilyrði farmanna (MLC), eru nú þegar reglur um vinnuskilyrði á sjó. Í reglu 2.7, sem fjallar um örugga mönnun skipa, segir að nægilega margir skuli vera í áhöfn skips, svo koma megi í veg fyrir síþreytu (fatigue). Í reglu 2.8 er tekið fram að sjómenn eigi að fá tækifæri til að þróa þekkingu sína og hæfni. Ef fánaríkin og atvinnurekendur fara eftir þessum reglum ætti að vera hægt að laða yngri vélstjóra að störfum á sjó.

NMF lýsir yfir ánægju sinni með niðurstöður funda Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) í janúar 2023. Draga má niðurstöðurnar saman á eftirfarandi hátt; Tækjabúnaður, mannleg hæfni og öryggi skulu liggja til grundvallar umhverfisstefnu í siglingum.

Til að mæta kröfum framtíðarinnar í umhverfismálum hefur stefnan þegar verið sett á kolefnishlutleysi og umhverfisvænni skipaflutningar.

Til að gera þessa umbreytingu mögulega hefur skipaiðnaður þurft að þróast yfir í hátækniiðnað, þar sem unnið er með nýjustu tækni hverju sinni. Áhafnir í vélarúmum, sem yfirvélstjórinn fer fyrir, vinna margar hverjar í dag að innleiðingu nýrra orkugjafa til að ná fyrstu stigum markmiðsins um samdrátt í losun kolefnis.

Þessi breyting krefst nýrrar nálgunar á ýmsum sviðum, ekki síst þegar kemur að áhættu- og hættugreiningum (risk and Hazard analysis) m.t.t. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna (UNCLOS 94) ásamt viðurkenningu á ábyrgð yfirvélstjóra á að farið sé eftir Alþjóðasamningi um öryggi mannslífa á hafinu (SOLAS) og alþjóðasamningi um varnir gegn mengun frá skipum (MARPOL), varðandi sérstakar losunarkröfur í nýjum tegundum skipa sem eru í þróun.

Áhættu- og hættugreiningin þarf einnig að taka tillit til sérstakrar smíði og hönnunar skipsins og eiginleika allra orkugjafa um borð, þar á meðal umhverfishagkvæmni þeirra sem skilgreind eru með útreikningi á losun (Well-to-Wake calculation). Jafnframt þarf hún að tryggja að allur búnaður um borð virki sem skyldi, að áhöfnin búi yfir hæfni til að vernda skipin, tryggja öryggi um borð og vernda umhverfið. Þetta ætti að vera viðurkennt af öllum skiparekstraraðilum og við allar aðstæður, til að forðast manntjón og það að áhafnarmeðlimir verði sóttir til saka vegna óhappa.

ISM-kóðinn er alþjóðlegur kóði um öryggisstjórnun skipa og mengunarvarnir sem hannaður er til að vera markmiðabundin, almennur og sveigjanlegur. Bæði ISM-kóðinn og STCW-samþykktin eiga það sameiginlegt að taka mið af mannlegum þáttum.

Stefna Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá skipum hefur enn fremur verið endurskoðuð. Þar er nú viðurkennt að nauðsynlegt sé að horfa í auknum mæli til mannegra þátta og tryggja að orkuskiptin verði hvoru tveggja framkvæmd með öryggi og réttlæti fyrir alla áhafnarmeðlimi að leiðarljósi.

Að teknu tilliti til ofangreindra áhersluþátta að viðbættum þeim þáttum sem snúa að hæfni vélstjóra, getur vinna við þróun og innleiðingu stefnunnar hafist. NMF hlakkar til að fylgjast með framvindunni.