2023
Boðar ný heildarlög um sjávarútveg
Fréttir

Boðar ný heildarlög um sjávarútveg

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra kynnti í gær lokaniðurstöður starfshópa Auðlindarinnar okkar. Á sama tíma var skýrslan Auðlindin okkar – sjálfbær sjávarútvegur gefin út. Við tilefnið sagði Svandís að um væri að ræða mikilvægt skref til að skapa skilyrði til aukinnar sáttar um sjávarútveg. Í verkefninu hefðu hagsmunir almennings verið settir í forgrunn.

Í skýrslunni eru lögð fram drög að stefnu um sjávarútveg, greining á niðurstöðum könnunar um viðhorf Íslendinga til sjávarútvegs birt og mat á þjóðhagslegum ávinningi fiskveiðistjórnunarkerfisins sett fram. Loks er sett fram tillaga að aðgerðaáætlun, þar sem lýst er markmiðum aðgerða, ábyrgðaraðila og tímamörkum. Skýrslan hefur verið birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Til stendur að leggja fram frumvarp til heildarlaga um nýtingu og stjórnun nytjastofna sjávar á Alþingi vorið 2024.

Skýrsluna má nálgast hér.

Lagt er til að sameign þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni verði lögfest í stjórnarskrá. Leggja á niður almennan byggðakvóta og setja þær veiðiheimildir á uppboð, til reynslu. Veiðigjöld á að hækka eitthvað en óljóst er að hvaða marki. Stuðla á að auknu gegnsæi og dreifðu eignarhaldi í sjávarútvegi auk þess sem koma á í veg fyrir að hægt sé að fara fram hjá kvótaþakinu. Til stendur að halda strandveiðum áfram en skýra þurfi betur markmið þeirra og greina árangur, svo eitthvað sé nefnt.