2023
Spennandi námskeið í boði hjá IÐUNNI
Fréttir

Spennandi námskeið í boði hjá IÐUNNI

Nokkur spennandi námskeið eru á dagskrá IÐUNNAR fræðsluseturs fyrir málm- og véltæknigreinar.

Þann 12. apríl hefst tveggja daga námskeið sem heitir Kælitækni, mat og vottun. Nemendur munu að loknu námskeiðinu þekkja Kyoto og Montreal  bókanirnar. Farið er í uppbyggingu kæli- og frystikerfa, helstu íhluti þeirra, tákn og táknmyndir, mælabrettið og notkun þess, mengunarhættu frá kælikerfum ásamt gildandi reglugerðum um kælimiðla, áhrif yfirhitunar og undirkælingar kælimiðils. Þá verður farið í áfyllingu kælimiðils og endurheimt kælimiðils.  Skipt verður um smurolíu á kælipressum á öruggan hátt. Með þessa þekkingu að vopni geturðu bilanaleitað kælikerfi, leitað að leka, stillt há- og lágþrýstiliða, afhrímað kerfið, stillt yfirhitun og undirkælingu, bætt á og tæmt kerfi af kælimiðli og smurolíu. Nemandi veit í lok yfirferðar hvað má og hvað má ekki varðandi flúoraða kælimiðla. Lóðningar eru kenndar og farið yfir hvernig á að slaglóða á öruggan hátt.

Þann 24. apríl stendur til boða tveggja tíma námskeið sem ber heitið Öryggistrúnaðarmenn og öryggisverðir. Farið er yfir hlutverk öryggistrúnaðarmanna, öryggisvarða og öryggisnefnda á vinnustöðum. Vinnuverndarlögin og reglugerðir um vinnuverndarmál eru kynnt. Farið er yfir helstu málaflokka vinnuverndarinnar, s.s. líkamsbeitingu, efni og inniloft, vélar og tæki, umhverfisþætti eins og t.d. hávaða og lýsingu og sálfélagslegt vinnuumhverfi, einelti og áreitni. Farið er ítarlega yfir áhættumat starfa en það er helsta hlutverk öryggistrúnaðarmanna og öryggisverða að framkvæma það og fylgja því eftir.

Fjarnámskeið eru einnig í boði. Þar er t.d. hægt að taka námskeið sem kallast Brúkrananámskeið. Fram kemur að brúkranar, sem lyfta meiru en 5 tonnum, hafi orðið réttindaskyldar vinnuvélar 1. október 2021. Þetta gerðist með nýjum reglum sem eru númer 1116. Námskeiðið er alltaf í gangi.

Grunnámskeið vinnuvéla er annað dæmi um fjarnámskeið sem fólk getur sótt þegar því hentar. Námskeiðið byggist á stuttum fyrirlestrum, ítarefni, verkefnum sem eru krossaspurningar og krossaprófum. Það þarf að leysa verkefnin og standast prófin til geta haldið áfram á námskeiðinu. Að námskeiðinu loknu geta þátttakendur hafið verklegt nám á allar gerðir réttindaskyldra vinnuvéla undir leiðsögn leiðbeinanda sem hefur kennsluréttindi. Að verklegri þjálfun lokinni er óskað eftir prófdómara frá Vinnueftirlitinu. Vinnueftirlitið gefur út vinnuvélaskírteini. Öll verkleg þjálfun og próf fara fram á vinnustöðum.