2023
Íslenskt app sem eykur öryggi sjómanna
Fréttir

Íslenskt app sem eykur öryggi sjómanna

„Við stærum okkur stundum af því að vera með besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi, ferskasta fiskinn og bestu afurðirnar. Við eigum líka að setja öryggismálin okkar á þann stall,“ segir Gísli Níls Einarsson, framkvæmdastjóri Alda öryggi ehf. Fyrirtækið vinnur nú að þróun öryggisstjórnunarkerfis fyrir fiskiskip. Um er að ræða smáforrit (app) og hugbúnað sem heldur utan um skipulag og framkvæmd öryggismála um borð í; þar er nýliðafræðsla fyrir sjómenn, gagnabanki fyrir björgunaræfingar, eigin skoðanir/úttektir á öryggisbúnaði og fræðsluefni frá Samgöngustofu og Slysavarnaskóla sjómanna svo fátt eitt sé nefnt. Appið er til þess fallið að setja öryggismál á dagskrá á aðgengilegan og nútímalegan hátt.

Áður en vinna við þróun appsins hófst voru tekin yfir 30 notendaviðtöl við sjómenn og skipstjórnendur, þar sem margar gagnlegar athugasemdir komu fram. Að Öldunni standa þrír menn auk Gísla; Guðmundur G. Sigurðsson hugbúnaðarsérfræðingur sem annast tækniþróun, Höskuldur Þ. Arason gagnagrunnasérfræðingur sér um gagnavinnslu og Gunnar Rúnar Ólafsson slökkviliðsmaður/bráðatæknir sér um vöruþróun. Sjálfur er Gísli sérfræðingur í öryggisstjórnun og framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Appið heitir Alda og er um þessar mundir í prófun. „Við erum í notendaprófunum með þremur samstarfsútgerðum okkar; Vísi í Grindavík, Skinney-Þinganes í Höfn og Gjögri í Reykjavík“ útskýrir Gísli. Hann segir að appið sé til þess gert að einfalda allt utanumhald öryggismála á skipunum, efla þátttöku sjómanna og stuðla að aukinni öryggisvitund allra um borð.

Utanumhald öryggismála á stafrænt form

Gísli segir í samtali við VM að þeir vilji fá alla hagsmunaaðila að borðinu þegar kemur að þróun appsins. Þeir séu þegar í samstarfi við Slysavarnaskóla sjómanna, Fiskitækniskólann og vélstjóra- og skipstjórnarnámið í Tækniskólanum. „Það er mjög mikilvægt að fá nemendur til að prófa hugbúnaðinn og fá frá þeim hugmyndir og endurgjöf. Maður finnur, þegar maður hittir ungt fólk, hvað það er ferskt. Maður heldur stundum sjálfur að maður sé síungur – alveg þangað til maður hittir fólk sem er yngra en maður sjálfur,“ segir hann og hlær.

Á annað hundrað sjómenn hafa þegar sótt appið, að sögn Gísla. Spurður hvernig hægt sé að fá starfandi sjómenn og skipstjórnarmenn til að nota appið bendir Gísli á að í dag séu lög í gildi um sjómenn, áhafnir skipa og reglugerðir um öryggismál sjómanna. „Það er nú þegar lögbundið að það eigi að halda nýliðaþjálfun, framkvæma björgunaræfingar og gera úttektir á öryggisbúnaði.“ Hann segir að í dag fari það svolítið eftir áherslum skipstjórans hversu margar æfingar séu haldnar og hversu vel áhöfnin sé að sér í öryggismálum skipsins. Appið færi skráningar æfinga og utanumhald um öryggismál af pappír yfir á stafrænt form. Þannig gefist útgerðum – og ábyrgðaraðilum öryggismála hjá útgerðum – líka færi á að fylgjast með í rauntíma um stöðu mála og ýta við mönnum ef æfingar hafa fallið milli skips og bryggju.

Löggjöf á leiðinni

Gísli bendir á að innan skamms megi vænta evrópskrar löggjafar sem kveði á um öryggisstjórnunarkerfi í fiskiskipum. Þegar sé á Íslandi kominn vísir að slíku regluverki; í áætlun ríkisins um öryggi sjófarenda 2019-2033 sé talað um innleiðingu öryggisstjórnunarkerfa og eigin skoðana í öll skip „Öldu er ætlað að mæta þeirri kröfu. Okkar markmið er að einfalda framkvæmdina á þessu og um leið virkja skipverjana,“ útskýrir Gísli. Sem dæmi um notkun appsins bendir Gísli á að skipstjóri geti í appinu sett æfingu á dagskrá. Skipverjarnir geti í appinu sótt sér fróðleik og undirbúið sig þannig undir æfinguna. Þannig verði æfingin markvissari og menn viti hvers til er ætlast af þeim.

Samstarfið við útgerðirnar þrjár hefur gengið vel að sögn Gísla. Hann nefnir sem dæmi að reyndir skipverjar í skipi Gjögurs hafi ákveðið að nota appið til að taka hvorn annan í nýliðaþjálfun – til upprifjunar. „Það kom ýmislegt þar í ljós; hlutirnir voru ekki allir eins og menn héldu fyrir. Okkar fyrsta reynsla af þessu er að ALDAN öryggisstjórnunarkerfið auki öryggisvitund sjómanna og stuðli að betri þátttöku,“ segir Gísli.

Hann segir aðspurður að fyrirtækið hafi mikinn áhuga á að hanna smærri útgáfu af Öldu fyrir smábátasjómenn og stjórnendur minni fiskiskipa, þar sem hægt er að halda gátlista yfir öryggismál og skipuleggja æfingar, svo eitthvað sé nefnt. Hann segir að það myndi bera nafnið Agga sem þýðir smá alda. Gísli bindur vonir við að Öggu-appið geti verið ókeypis fyrir smábátasjómenn. „Við höfum kynnt þá hugmynd fyrir Siglingaráði og höfum falast eftir styrk frá þeim til þróunar hugbúnaðarins fyrir minni báta. Við bíðum svars.“