2023
Vel sóttur aðalfundur IÐN-UNG: „Þetta gekk bara stórkostlega“
Fréttir

Vel sóttur aðalfundur IÐN-UNG: „Þetta gekk bara stórkostlega“

Margrét Arnarsdóttir var kjörin formaður félagsins

Aðalfundur IÐN-UNG var haldinn síðastliðinn föstudaginn 24. mars. Margrét Arnarsdóttir var kjörinn formaður félagsins en Gabríel Daði F. Rangarsson varaformaður. Tveir gáfu kost á sér í embætti varaformanns. Loks voru átta kjörnir í stjórn, til viðbótar við tvo sem þar voru fyrir. Ný stjórn skipar því tíu manns en félagið nýtti sér undanþáguákvæði til eins árs til að skipa svo fjölmenna stjórn.

„Þetta gekk bara stórkostlega. Það var virkilega góð mæting miðað við að þetta er nýstofnað félag,“ segir Margrét í samtali við VM um fundinn á föstudag en IÐN-UNG, sem iðnfélögin í Húsi fagfélaganna standa að, eru hagsmunasamtök ungs fólks í iðnaði.

Eins og VM greindi frá í liðinni viku kynnti IÐN-UNG starfsemi sína og áherslur fyrir gestum á Íslandsmóti iðn- og verkgreina í Laugardalshöll á dögunum. Sú kynning virðist hafa borið árangur því góð mæting var á fundinn. „Það er ótrúlega ánægjulegt hvað margir sáu sér fært að mæta og sýndu þannig þessu starfi áhuga,“ segir Margrét.

Hún segir aðspurð að næstu verkefni félagsins sé að skipuleggja haustið. „Við ætlum í nokkrar skólaheimsóknir auk þess sem við áformum þátttöku í fleiri viðburðum. Við þurfum núna að móta starfið, stofna heimasíðu og vinna í lögum félagsins,“ segir formaðurinn að lokum.