Uppsögn

Uppsagnarfrestur félagsmanna VM er misjafn eftir því hvort starfað er á sjó eða í landi. Hér er farið yfir þá framkvæmd auk þess sem farið er yfir framkvæmd uppsagnar.

Uppsagnarfrestur á sjó

Sjómannalög

Samkvæmt 9. grein sjómannalag skal uppsagnarfrestur á skiprúmssamningi vélstjóra vera þrír mánuðir nema um annað hafi sérstaklega verið samið og á það einnig við um skipverja sem starfað hefur sem afleysingamaður í yfirmannsstöðu í níu mánuði samfleytt hjá sama útgerðarmanni.

Um uppsagnir

  • Við ráðningu í skiprúm skal nota staðlað samningsform.
  • Ef ekki er um tímabundna ráðningu að ræða er uppsagnarfrestur vélstjóra þrír mánuðir. Uppsögn skal vera skrifleg af beggja hálfu og miðast uppsagnarfrestur við dagsetningu uppsagnarbréfs.
  • Fari vélstjóri fyrirvaralaust úr starfi eða áður en uppsagnarfrestur er liðinn án lögmætrar ástæðu, á útgerðarmaður rétt á bótum úr hendi vélstjóra er nemi launum fyrir hálfan uppsagnarfrest eða helming þess tíma sem eftir er af uppsagnarfrestinum.
  • Í kjarasamning VM við SFS, grein 1.23. um réttindi afleysingamanna segir: Sé ráðinn afleysingamaður og hafi hann verið lögskráður sem yfirmaður hjá sömu útgerð í 7 mánuði á undangengnum 12 mánuðum með eðlilegri fríatöku öðlast hann öll þau réttindi til að gegna viðkomandi stöðu.

Uppsagnarfrestur í landi

Uppsagnarfrestur er gagnkvæmur og miðast við viku- eða mánaðamót. Uppsagnir skulu vera skriflegar og gerðar á sama tungumáli og ráðningarsamningur starfsmanns.

Heimilt er að ráða starfsmann tímabundið eða til ákveðins verkefnis. Slík ráðning má þó ekki vera til lengri tíma en þriggja mánaða. Tímabundinni ráðningu má segja upp með tveggja vikna fyrirvara m.v. vikumót.

Uppsagnarfrestur (almennur kjarasamningur VM við SA)

Málmiðnaðarmenn og vélstjórar: 

  • Á fyrsta starfsári: 2 vikur m.v. vikumót.
  • Eftir 1 ár í starfsgreininni: 1 mánuður m.v. mánaðamót.
  • Eftir 3 ár í starfsgreininni: 2 mánuðir m.v. mánaðamót.
  • Eftir 5 ár í sama fyrirtæki: 3 mánuðir m.v. mánaðamót. 
  • Athugið að ákvæði þetta hefur ekki áhrif á rétt vélstjóra sem áunnið hafa sér lengri uppsagnarfrests á grundvelli eldri kjarasamnings VSFÍ.

Starfsmenn án sveinsprófs: 

  • Á fyrsta starfsári: 2 vikur m.v. vikumót
  • Eftir 1 ár samfellt í starfsgreininni: 1 mánuður m.v. mánaðamót.
  • Eftir 3 ár samfellt í sama fyrirtæki: 2 mánuðir m.v. mánaðamót.
  • Eftir 5 ár samfellt í sama fyrirtæki: 3 mánuðir m.v. mánaðamót.

Starfslok

Sé starfsmanni sagt upp, eftir 10 ára samfellt starf hjá sama fyrirtæki, er uppsagnarfrestur:

  • 4 mánuðir ef starfsmaður er orðinn 55 ára
  • 5 mánuðir ef hann er orðinn 60 ára og
  • 6 mánuðir þegar hann er orðinn 63 ára.
  • Starfsmaður getur hins vegar sagt upp starfi sínu með þriggja mánaða fyrirvara. 

Framkvæmd uppsagna

Viðtal um ástæður uppsagnar

  • Starfsmaður á rétt á viðtali um starfslok sín og ástæður uppsagnar. Beiðni um viðtal skal koma fram innan fjögurra ólarhringa frá því uppsögn er móttekin og skal viðtal fara fram innan fjögurra sólarhringa þar frá.
  • Starfsmaður getur óskað þess þegar að loknu viðtali eða innan fjögurra sólarhringa að ástæður uppsagnar séu skýrðar skrif-lega. Fallist atvinnurekandi á þá ósk hans, skal við því orðið innan fjögurra sólarhringa þar frá.
  • Fallist atvinnurekandi ekki á ósk starfsmanns um skriflegar skýringar á starfsmaður, innan fjögurra sólarhringa, rétt á öðrum fundi með vinnuveitanda um ástæður uppsagnar að viðstöddum trúnaðarmanni sínum eða öðrum fulltrúa stéttar-félags síns ef starfsmaður óskar þess.

Takmörkun uppsagnarheimildar skv. lögum

  • Við uppsagnir skal gæta ákvæða laga sem takmarka frjálsan uppsagnarrétt vinnuveitanda, m.a. ákvæða um trúnaðarmenn og öryggistrúnaðarmenn, barnshafandi konur og foreldra í fæðingarorlofi, starfsmenn sem tilkynnt hafa um fæðingar- og foreldraorlof og starfsmenn sem bera fjölskylduábyrgð.
  • Einnig verður að gæta ákvæða 4. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna, laga um starfsmenn í hlutastarfi, laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum og samráðsskyldu laga um hópuppsagnir.
  • Þegar starfsmaður nýtur uppsagnarverndar skv. lögum, ber vinnuveitanda að rökstyðja skriflega hvaða ástæður liggja að baki uppsögn.

Viðurlög

Brot gegn ákvæðum þessa kafla geta varðað bótum skv. almennum reglum skaðabótaréttarins.

Hópuppsagnir

Samningsaðilar eru sammála um að æskilegt sé að uppsagnir beinist einungis að þeim starfsmönnum, sem ætlunin er að láti af störfum, en ekki öllum starfsmönnum eða hópum starfs-manna. Í ljósi þessa hafa aðilar gert með sér eftirfarandi samkomulag:

Gildissvið

Samkomulag þetta tekur einungis til hópuppsagna fastráðinna starfsmanna þegar fjöldi þeirra sem segja á upp á þrjátíu daga tímabili er:

  • a.m.k. 10 manns í fyrirtækjum með 16 – 100 starfsmenn,
  • a.m.k. 10% starfsmanna í fyrirtækjum með 100 – 300 starfsmenn,
  • a.m.k. 30 manns í fyrirtækjum með 300 starfsmenn eða fleiri.

Það telst ekki til hópuppsagna þegar starfslok verða samkvæmt ráðningarsamningum sem gerðir eru til ákveðins tíma eða vegna sérstakra verkefna.

Samkomulag þetta gildir ekki um uppsagnir einstakra starfsmanna, um uppsagnir til breytinga á ráðningarkjörum án þess að starfslok séu fyrirhuguð, né um uppsagnir áhafna skipa.

Samráð

Trúnaðarmenn skulu þá eiga rétt á að fá upplýsingar, sem máli skipta um fyrirhugaðar uppsagnir, einkum ástæður uppsagna, fjölda starfsmanna sem til stendur að segja upp og hvenær uppsagnir komi til framkvæmda.

Framkvæmd hópuppsagna

  • Verði, að mati atvinnurekanda, ekki komist hjá hópuppsögnum, þó að stefnt sé að endurráðningu hluta starfsmanna án þess að komi til starfsloka, skal miða við að ákvörðun um það hvaða starfsmönnum bjóðist endurráðning liggi fyrir eins fljótt og mögulegt er.
  • Hafi ákvörðun um endurráðningar ekki verið tekin og starfsmanni tilkynnt að ekki geti orðið af endurráðningu, það tímanlega að eftir standi a.m.k. 2/3 hlutar uppsagnarfrests viðkomandi starfsmanns, framlengist uppsagnarfrestur hans um einn mánuð ef uppsagnarfrestur er þrír mánuðir, um þrjár vikur ef uppsagnarfrestur er tveir mánuðir og um tvær vikur ef upp-sagnarfresturinn er einn mánuður. Þetta ákvæði tekur til starfsmanna sem áunnið hafa sér a.m.k. eins mánaðar uppsagnarfrest.
  • Þrátt fyrir ákvæði þessarar greinar er heimilt vegna utanaðkomandi atvika sem atvinnurekandi ræður ekki við, að skilorðsbinda tilkynningu um endurráðningu því að atvinnurekandinn geti haldið áfram þeirri starfsemi sem starfsmaðurinn er ráðinn til án þess að það leiði til lengingar uppsagnarfrests.

Uppsögn vegna gjaldþrots fyrirtækis

Starfsmenn sem verða fyrir því að fyrirtæki sem þeir starfa hjá verður gjaldþrota eiga venjulega bótakröfu á fyrirtækið vegna riftunar á starfssamningi. Yfirleitt er um að ræða bætur í uppsagnarfresti viðkomandi starfsmanns. Ábyrgðarsjóður launa áskilur sér hins vegar rétt til þess að hafna greiðslum til launþega vegna bóta í uppsagnarfresti úr gjaldþrotabúum nema ítarlegum tilmælum sjóðsstjórnar sé fylgt.

Verði fyrirtæki gjaldþrota getur félagsmaður VM leitað til skrifstofu félagsins sem gerir kröfu fyrir hann í þrotabúi fyrirtækisins. Ef skiptastjóri þrotabúsins samþykkir kröfuna og fyrirtækið, sem hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta, á ekki fyrir greiðslu launa getur félagið fyrir hans hönd óskað eftir greiðslu úr Ábyrgðarsjóði launa. Launakröfur sem eru eldri en 18 mánaða frá gjaldþroti (frestdegi) njóta ekki forgangs í þrotabúið og þar af leiðandi ekki heldur ábyrgðar Ábyrgðarsjóðs launa. 

Ábyrgðarsjóður launa

Ábyrgðarsjóður launa hefur ákveðnar starfsreglur sem gott er að hafa í huga og eru þær helstar sem hér segir: 

  • Eingöngu þeir launþegar sem skráðir eru atvinnulausir á vinnumiðlun viðkomandi sveitarfélags hafa rétt til bóta úr Ábyrgðarsjóði launa vegna riftunar eða uppsagnar vinnusamnings þegar bú vinnuveitanda er tekið til gjaldþrotaskipta.
  • Sækja verður um vinnu eða skrá sig atvinnulausan innan tveggja vikna frá því að rof verður á vinnusamningi, að öðrum kosti skerðast bætur í uppsagnarfresti til viðkomandi launþega.
  • Einhliða yfirlýsing atvinnurekenda um að launþegi hafi sótt um vinnu á uppsagnartímabilinu er ekki tekin til greina.
  • Bætur verða einungis greiddar fyrir það tímabil sem umsækjandi hefur sannanlega verið skráður umsækjandi um vinnu.

Með þessum reglum er Ábyrgðarsjóður launa að fara fram á ákveðinn feril hvers launþega sem sækir um bætur til sjóðsins. Ef ekki er farið í einu og öllu eftir þessum tilmælum stjórnar sjóðsins áskilur sjóðurinn sér allan rétt til að hafna greiðslum.


Uppsagnarbréf

Að skrifa uppsagnarbréf

  • Það er mikilvægt fyrir starfsmenn að standa rétt að því að segja upp störfum. Í uppsagnarbréfi þurfa að koma fram ákveðnar upplýsingar og dagsetningar verða að vera réttar.
  • Dæmi: Starfsmaður sem hefur þriggja mánaða uppsagnarfrest segir upp 31. ágúst árið 2013. Hann miðar við starfslok, eða síðasta starfsdag, þann 31. nóvember 2013.
  • Einnig er mikilvægt að starfsmaðurinn haldi eftir eintaki af uppsagnarbréfinu. Því er ráð að prenta bréfið út í tvíriti og láta vinnuveitanda kvitta fyrir móttöku bréfsins á það eintak sem starfsmaðurinn heldur eftir.

Hér má sjá dæmi um uppsagnarbréf