Lífeyrissjóður

Almennu lífeyrissjóðirnir eiga að tryggja fólki örugga afkomu við starfslok. Með því að greiða í lífeyrissjóð öðlast fólk mikilvæg réttindi. Lífeyrissjóðurinn tryggir fólki ellilífeyri eftir að störfum lýkur og allt til æviloka. Hann tryggir þeim sem þurfa að hætta vinnu vegna sjúkdóms eða slyss örorkulífeyri. Þá fá maki og börn greiddan lífeyri ef fyrirvinna deyr.

Allt launafólk á Íslandi á lögum samkvæmt að greiða í lífeyrissjóð. Iðgjald í lífeyrissjóð er oftast 12% og greiðir launamaður 4% en atvinnurekandi 8,5%, frá 1. júlí 2016.

Öryggið sem almennu lífeyrissjóðirnir veita kostar lítið í samanburði við ýmsar tryggingar sem bjóðast til kaups. Þátttaka í lífeyrissjóðakerfinu hefur verið mjög góð og því dreifist áhættan á mjög marga. Almennu lífeyrissjóðirnir eru því raunverulegt samtryggingarkerfi.

Lífeyrissjóðirnir urðu til í kjarasamningum í lok sjöunda áratugarins þegar launafólk ákvað að verja hluta af tekjum sínum til að tryggja sér lífeyri í framtíðinni. Sjóðirnir hafa eflst með tímanum og margir þeirra runnið saman svo til hafa orðið færri en sterkari sjóðir. Afkoma lífeyrissjóðanna hefur batnað verulega, þeir standa almennt mjög vel og munu geta staðið undir skuldbindingum sínum í framtíðinni.

Einkenni almennu lífeyrissjóðanna

Sjóðsöfnun

Við leggjum saman í sjóð sem er ávaxtaður til að greiða okkur öllum lífeyri tli æviloka. Þannig er lífeyrir framtíðarinnar tryggður með traustum sjóði fremur en vaxandi skattbyrði á afkomendur okkar.

Samtrygging

Aðild að lífeyrissjóði tryggir þér verðtryggðan lífeyri til æviloka. Með samábyrgð og þátttöku allra tryggjum við einnig lífeyri til þeirra sem verða fyrir áfalli vegna sjúkdóms eða slyss.

Skylduaðild

Aðild að lífeyrissjóði er hluti af umsömdum kjörum hverrar starfsstéttar eða starfshóps. Skylduaðildin er forsenda áhættudreifingar, kemur í veg fyrir mismunun og tryggir öllum lífeyri, óháð efnahag og aðstæðum.

Séreignasparnaður

Vegna ákvæða laga um frestun skattlagningar, sem fela það í sér að draga má greidd lífeyrisiðgjöld sem nema allt að 8% af heildarlaunum frá skattstofni, þá er heimilt að greiða allt að 4% af heildarlaunum sem iðgjald í séreignarsjóð til viðbótar við lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð. Sjóðfélagar í séreignarsjóð eiga þá jafnan kost á mótframlagi frá launagreiðanda sem getur numið allt að 2,0% til viðbótar.

Af hverju séreignarsparnaður?

Af því að séreignasparnaður er í raun bein launahækkun. Kostir séreignarsparnaðar eru ótvíræðir. Mótframlag launagreiðanda, ásamt skattfrestun við innborgun, gerir það að verkum að enginn annar sparnaður stenst samanburð við séreignarlífeyrissparnað.

Launþegi á rétt á mótframlagi frá launagreiðanda.

  • Mótframlag er 2,0% á móti 2-4% iðgjaldi sjóðfélaga.
  • Hvorki eignaskattur né fjármagnstekjuskattur greiðist af séreignarsparnaði.
  • Skerðir hvorki barna- né vaxtabætur.
  • Skattalegt hagræði myndast þar sem iðgjald er ekki skattlagt við innborgun.
  • Sparnaðurinn erfist.
  • Úttekt getur hafist við 60 ára aldur.
  • Sveigjanlegar reglur um útborgun.
  • Meira ráðstöfunarfé á eftirlaunaárunum og betri nýting skattkorts.