2023
Ofbeldi að halda sjómönnum samningslausum
Fréttir

Ofbeldi að halda sjómönnum samningslausum

Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður VM, var í hópi um fimmtíu gesta sem mættu á lokafund Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) sem haldinn var í Hörpu í Reykjavík í morgun, 10. nóvember. Á fundinum fluttu Konráð S. Jónsson, aðalhagfræðingur hjá Arion banka og Björn Berg Gunnarsson fjármálaráðgjafi erindi um stöðu íslensks sjávarútvegs á alþjóðavísu og horfur í greininni. Fundurinn var lokaynykkurinn í hringferð sem samtökin hafa farið í kring um landið í haust. Yfirskrift hringferðarinnar var „Hvað hefur sjávarútvegurinn gert fyrir þig?“. Markmiðið var að „heyra, beint og milliliðalaust, hvað brennur á fólk í tengslum við sjávarútveg.“

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, flutti erindi og kynnti fyrir fundargestum ýmsar hagstærðir úr íslenskum sjávarútvegi. Hún bar meðal annars saman laun á Íslandi, Noregi og í Færeyjum, sem hlutfall af verðmætum en birti líka samanburðartölfræði um vinnslu á þorski. Ísland er í sérflokki hvað vinnslu á þorski varðar, samanborið við nágrannalöndin en tæplega 90% þorsks sem Íslendingar veiða er unninn. Hún ræddi líka veiðigjöld í greininni og skoðaði skattspor íslensks sjávarútvegs, svo eitthvað sé nefnt.

Eftir erindin fóru fram umræður. Guðmundur Helgi tók til máls í umræðunum en í salnum voru nokkrir af aðsópsmestu útgerðarmönnum landsins.

„Þið talið um að fólkinu eigi að líða vel og þið ætlið að laða að ykkur góðan mannskap. Þið spyrjið líka hvað sjávarútvegurinn hefur gert fyrir þig. Við vitum hvað hann hefur gert fyrir ykkur. Hagnaður á síðasta ári var 67 milljarðar og 22 milljarðar voru greiddir í arð. Sjómenn eru búnir að vera samningslausir í fjögur ár. Í fyrsta skipti í sögunni hafa útgerðarmenn neitað að breyta tryggingunni og tímakaupinu. Áður fyrr var alltaf samið um þetta, þrátt fyrir að ekki væri skrifað undir heildarsamninga. Nú hafið þið neitað því og sagt okkur að við getum fengið þá hækkun sem við viljum ef við gefum samsvarandi eftir annars staðar. Ég lít á það að halda sjómönnum samningslausum í fjögur ár sem ofbeldi og spyr hvernig þig réttlætið þetta og spyr einnig hvort þið haldið að þetta sé leiðin til að laða að ykkur góðan mannauð?“

Heiðrún Lind þakkaði fyrir spurningu Guðmundar og benti á að sjómenn hefðu fellt samning sem þau skrifuðu undir síðasta vetur. Þau tvö gætu ekki kennt neinum öðrum um þá stöðu sem uppi væri og þetta væri verkefni sem þau yrðu að leysa. „Ég held að það sé mjög mikilvægt að við náum saman um samning, eins og við gerðum við skipstjórnarmenn; að við klárum restina af flotanum og okkur takist að ræða okkur í gegn um þau mál sem út af standa. Við vitum að sjómenn höfnuðu þessum samningi. Það er ábyrgð okkar tveggja að setjast niður – við erum reyndar sest niður – og leysa úr þessari flækju.“

Fundinn í heild má horfa á hér.

Myndir/SFS