2024
NMF fundaði í Reykjavík
Fréttir

NMF fundaði í Reykjavík

Norræna vélstjórasambandið (NMF) fundaði í Reykjavík dagana 20. og 21. ágúst sl.

Á fundum sambandsins er farið yfir skýrslur landanna þar sem fjallað er um kjör stéttarinnar, menntun og lagaumhverfi. Vélstjórar eiga það sameiginlegt að vinna í tækniumhverfi þar sem þróunin er hröð. Þetta á sérstaklega við undanfarin ár þar sem merkja má breytingar sem munu hafa mikil áhrif á störf vélstjóra til frambúðar. Þar má helst má nýja orkugjafa og nýja tækni þeim samfara.

Sambandið hefur unnið að endurnýjun stefnumótunar og áherslum sem vinna þarf að í framtíðinni. Eftirfarandi þemu lýsa áherslum sambandsins: manneskjan, heilbrigði og öryggi, hæfni, innleiðing nýrrar tækni og umhverfisvernd.

Félögin sem standa að sambandinu sækja fundi alþjóðastofnana og kynna það helsta sem þar er í vinnslu á fundum sambandsins.

Að þessu sinni kynntu fulltrúar frá Samgöngustofu Skútuna, sem er nýtt skipaskrár- og lögskráningarkerfi stofnunarinnar. Í umræðum eftir kynninguna kom á daginn að hin löndin hafa sambærilega skráningu á því hverjir eru um borð í skipum hverju sinni. Það sem íslenska kerfið hafði umfram þær skráningar eru tengingar við hvort skipið hafi gilt haffæriskírteini og sé mannað samkvæmt lögum ásamt því hvort tryggingar séu í lagi. Af þessu voru fundarmenn hrifnir. Í Skútunni eru einnig tengingar við einstaklinga; hvort atvinnuskírteini vélstjóra og stýrimanna séu gild og hvort áhafnarmeðlimir hafi sótt lögboðin öryggisnámskeið.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá fundahöldunum.