2024
Tíu heiðraðir á sjómannadaginn
Fréttir

Tíu heiðraðir á sjómannadaginn

Sjómannadagsráð heiðraði tíu sjómenn við hátíðlega athöfn í Hörpu á sjómannadaginn, 2. júlí síðastliðinn. Frá kemur á vef sjómannadagsráðs að dagurinn hafi hafist á minningarathöfn við Fossvogskirkju, þar sem sjómanna sem farist hafa við störf á sjó var minnst. Að þeirri athöfn lokinni var haldið í sjómannamessu í Dómkirkjunni. Síðar um daginn voru sjómenn heiðraðir við hátíðlega athöfn í Hörpu.

Vegna eldgosa við Grindavík, bauð Sjómannadagsráð Grindvíkingum að taka þátt í hátíðarhöldunum í Reykjavík og voru því tíu sjómenn heiðraðir við athöfnina í Hörpu:

  • Ragnar Blöndal Birgisson
  • Sigurdór Friðjónsson
  • Guðmundur Haraldsson
  • Jóhannes Ellert Eiríksson
  • Brynjar Viggósson
  • Magnús Viðar Helgason

Frá Grindavík:

  • Ármann B. Brynjarsson
  • Njáll Þorbjarnarson
  • Jóhanna A. Sigurðaradóttir
  • Hólmgeir Jónsson

Að lokum var fráfarandi forseti Guðni Th. Jóhannesson sæmdur heiðursorðu Sjómannadagsráðs sem þakklætisvottur fyrir sýndan hlýhug og velvild í garð sjómanna á öllu landinu. Einnig var honum færð afsteypa af styttunni Horft til hafs eftir Inga Þ. Gíslason.

Hér fyrir neðan er kynning á heiðruðum félagsmönnum VM, sem flutt var á athöfninni í Hörpu.

Brynjar Viggósson fæddist í Reykjavík 29. júlí 1951 og hefur frá sex ára aldri búið í Mosfellsbæ eða frá því að afi hans festi kaup á bænum Markholti. Foreldrar hans voru Lára Haraldsdóttir og Viggó Brynjólfsson, en Brynjar ólst upp í góðu yfirlæti hjá fósturforeldrum sínum – þeim Þórði og Magnelíu í Mosfellsbæ.

Brynjar hóf sjómannsferil sinn á netavertíð í Grundarfirði árið 1968. Hann hóf nám í Vélskólanum 1973, lauk 4. stigi 1977 og var meðfram námi á sjó á sumrin. Að lokinni útskrift starfaði Brynjar fyrstu árin í fiskimjölsverksmiðjum landsins og í vélsmiðju þar sem hann lauk sveinsprófi 1990.

Á árabilinu 1991 til 2003 var Brynjar á olíuflutningaskipunum Kyndli, Laugarnesi og Keili og svo á dýpkunarskipum Björgunar sem Brynjar segir að tryggi m.a. sjófarendum öruggar siglingarleiðir auk þess að brjóta nýtt land undir mannvirki – Nefnir hann þar t.d. athafnasvæðið í Sundahöfn, stóran hluta Kársnessins að ekki sé nú talað um þessa glæsilegu byggingu sem við stöndum í – Hörpuna sem stendur einmitt á landfyllingu dýpkunarskipanna.

Eftir að Brynjar lauk formlegum störfum á vinnumarkaði hefur hann sinnt áhugamálum og félagsstörfum – hann er fulltrúi í Sjómannadagsráði og situr í ritnefnd Sjómannadagsblaðsins auk þess að hafa hafa lengi verið í stjórn Styrktar- og sjúkrasjóðs VM.

Brynjar veit ekki hvað er að leggja hendur í skaut og um þessar mundir hafa þau hjónin umsjón með orlofshúsum Landsbankans í Selvík sem þau sinna nokkra daga í senn í hverjum mánuði, en frúna hefur hann þekkt frá því á unglingsárunum í Mosfellsbæ. Svanlaug Aðalsteinsdóttir er frá Korpúlfsstöðum, alin upp í Markholti eins og Brynjar og hófu þau sinn búskap 1975. Þau hafa eignast þrjú börn og eiga sex barnabörn.

Fyrir utan sem mesta samveru með fjölskyldunni fylgist Brynjar með íþróttafélögunum í Mosfellsbæ, enda fyrrum handboltakempa þar í bæ. Einnig stundar hann karlaþrek með Ungmennafélaginu ungum sveinum, þar sem Brynjar er elstur en ábyggilega hraustastur, auk þess sem hann syndir sína 500 metra á hverjum morgni. Keppnisskapið er því enn til staðar.

 

Magnús Viðar Helgason fæddist í Reykjavík 3. febrúar 1951. Foreldrar eru Helgi Sumarliði Einarsson úr Grímsnesi, og Svava Magnúsóttir frá Flateyri. Magnús var 14 ára þegar hann fór fyrst til sjós sem messagutti á Goðafossi. Það kom til að fyrr um árið lést móðir hans, eldri systir hans var farin til útlanda og faðir hans í miklum önnum. Lítið pláss var því fyrir drenginn og var talið best að senda hann á sjóinn. Með Goðafossi sigldi Magnús þrjú sumur.

Að loknu grunnskólanámi tók Magnús Vélskólann frá 1970 til 1974 og sveinsprófi í vélvirkjun lauk hann 1980. Á liðnum áratugum hefur Magnús að auki lokið yfir 30 formlegum endurmennturnar- og fagnámskeiðum – enda fór það svo á sjómannadaginn 2008 að Magnúsi var veitt viðurkenningin Neistinn fyrir fyrirmyndar yfirvélstjórastörf.

Að loknu gagnfræðaprófi réðst Magnús sem dagmaður í vél á Brúarfossi og var þar í eitt ár auk þess að vera á fleiri skipum og bátum í kjölfarið.

Í afdrifaríkustu sjóferðina fór Magnús þó haustið 1969 þegar hann munstraði sig sem háseta á færeyska skipið Leif heppna sem hélt til veiða í Grænlandshafi. Sú ferð átti að vara í 2-3 mánuði en útgerðarmaðurinn hafði gefið ungu íslensku sjómönnunum vel í glas og fengið þá til að kvitta undir að úthaldið yrði tvö ár, án þeirra vitundar. Eftir sex mánaða úthald hugðist skipstjórinn halda til Nýfundalands en þá gerðu Íslendingarnir uppreisn sem kom í veg fyrir þau áform og skáru þeir á veiðarfæri og fleygðu leirtauinu i sjóinn. Var því siglt heim til Íslands til að skila uppreisnarseggjunum sem voru að auki hýrudregnir fyrir uppátækið. Þessi saga er í senn stórskemmtileg en einnig vitnisburður um mikilvægi kjarabaráttunnar eilífu fyrir réttindi sjómanna.

Eftir þetta sigldi Magnús með ýmsum fiskiskipum og frökturum, m.a. á Esjunni sem svo fékk nafnið Kistufell. Var Magnús þar í áhöfn uns hann fór yfir á Hákon frá Grenivík.

Árið 1997 fór Magnús í land og til Slippfélagsins og síðar Áburðarverksmiðjunnar. Þegar hún var seld snéri Magnús aftur til hafs og þá með Arnarfellinu og Helgafellinu þar sem hann var í áraraðir.

Þegar upp er staðið spannaði sjómannsferill Magnúsar yfir 50 ár.

Eiginkona Magnúsar var Stella Hauksdóttir sem Magnús hitti fyrst árið 1969 um borð í Bakkafossi. Þrjú ár liðu þar til þau sáust aftur og hófu búskap. Þau eiga saman þrjú uppkomin börn, jörð fyrir vestan og stunduðu þar kartöflu- og grænmetisrækt, lítilsháttar skógrækt, og trilluútgerð. Magnús kvaddi Stellu eftir skammvinn veikindi en hún féll frá 21. Júní í fyrra. Hann hugsar hlýtt til Stellu sinnar dag hvern og þá sérstaklega í guðsgrænni náttúrunni fyrir vestan.

 

Um sjómannadagsráð

Sjómannadagsráð var stofnað af sjómannafélögum í Reykjavík og Hafnarfirði 25. nóvember 1937. Í fyrstu var tilgangurinn að standa fyrir árlegum sjómannadegi, en mikill stuðningur almennings við samtökin strax í upphafi leiddi fljótlega til þeirrar ákvörðunar (1939) að ráðið skyldi beita sér fyrir byggingu dvalarheimilis fyrir aldraða sjómenn (DAS).

Í dag er tilgangur félagins tvíþættur. Annarsvegar að standa að hátíðarhöldum Sjómannadagsins árlega og gefa honum verðugan sess í íslensku þjóðlífi. Hinsvegar felst megin þungi starfseminnir í að veita öldruðum húsaskjól og daglega öldrunarþjónustu. Á vegum félagsins eru átta starfsstöðvar í fimm fimm sveitarfélögum með Hrafnistuheimilum og fjórar með leiguíbúðum Naustavarar. Starfmenn eru um 1500 og húsakostur um 90 þúsund fermetrar. Þjónustuþegar eru vel á annað þúsund.

Hér fyrir neðan má sjá myndir frá athöfninni.