Blaut tuska framan í launafólk
Yfirlýsing
Sú ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands, sem kynnt var 20. mars, að halda stýrivöxtum óbreyttum er sem blaut tuska framan í launafólk. Eins og kunnugt er hefur stór hluti íslensks vinnumarkaðar samþykkt kjarasamninga sem kveða á um afar hófsamar launahækkanir. Markmið samningana er að skapa efnahagslegar forsendur fyrir því að hægt sé að lækka vexti og draga úr verðbólgu.
Fyrir sléttri viku sagði Seðlabankastjóri í fjölmiðlum að undirritun kjarasamninga væru góð tíðindi og að peningastefnan væri að virka. Allt væri á réttri leið. Stjórnvöldum og samtökum atvinnurekenda er raunar tíðrætt um ábyrgð vinnandi stétta þegar verðbólgu ber á góma. Ákvörðun peningastefnunefndar í morgun undirstrikar enn og aftur að áhrif launafólks á verðbólguna eru takmörkuð. Þetta er ekki okkar verðbólga!
Sú ákvörðun peningastefnunefndar að lækka ekki vexti eru gífurleg vonbrigði. Launafólk á Íslandi hefur lagt lóð sín á vogarskálarnar í átt að efnahagslegum bata samfélagsins. Fyrirtækjum í landinu og opinberum aðilum ber skylda til að róa í sömu átt. Það er forsenda friðar á vinnumarkaði.
Fagfélögin