2024
Fullt út úr dyrum á Skrúfudeginum – myndir
Fréttir

Fullt út úr dyrum á Skrúfudeginum – myndir

„Þetta er dagur sögu og stolts en um leið dagur framsýni,“ segir Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, þegar VM hitti hana að máli á Skrúfudeginum, árlegum kynningardegi nemenda í Véltækni- og Skipstjórnarskóla Tækniskólans. Dagurinn var á laugardaginn haldinn í 60. sinn en hann var fyrst haldinn fyrir 62 árum. Það var aðeins fyrir tilstilli kórónaveirufaraldursins sem dagurinn féll niður í tvö skipti.

Engu er ofaukið þegar fullyrt er að skólinn hafi verið fullur út úr dyrum, sama hvort litið var inn í aðalbygginguna, vélasalinn, húsnæði siglingaherma eða farið upp í turn. Hvarvetna var fólk að skoða eða fikta, spjalla eða faðmast.

Margt var um manninn í vélasal skólans, eins og í öðrum byggingum.

 

„Hingað mætir mikið af fjölskyldufólki, jafnvel gamlir nemendur skólans með börnin sín eða barnabörn – sem sum hver verða vafalaust framtíðarnemendur við skólann. Margir koma hingað til að hitta gamla skólafélaga og gleðjast saman,“ segir Hildur og bætir við að ekki aðeins sé verið að kynna starfsemi skólans heldur séu fyrirtæki sem eru starfsvettvangur fyrir vélfræðinga og stýrimenn að kynna sína starfsemi. Hún nefnir Landsvirkjun, Orkuveituna og Eimskip, sem dæmi. „Þetta er góð kynning á skólanum sem nemendur hafa séð um að skipuleggja. Við styðjum auðvitað við þá með ýmsum hætti en þetta er á þeirra höndum,“ segir Hildur. Hún nefnir að sérstaklega ánægjulegt hafi verið, fyrr um daginn, að hitta þrjá af þeim nemendum sem héldu fyrsta skrúfudaginn, fyrir 62 árum. Það voru þeir Sigurður Eggert Sigurðsson, Steinar Gunnarsson og Kristján Þórðarson.

Hildur segir að þessi dagur undirstriki hvað vélfræðin sé spennandi nám. „Svona dagur er frábær því maður sér svo vel hvað vélfræðingar eru eftirsóttir og hvað þeir vinna við fjölbreytt störf. Þetta eru ekki bara störf á sjó heldur líka í orkuiðnaði, málmiðnaði og hjá ýmis konar framleiðslufyrirtækjum. Þessir nemendur verða ekki í vandræðum með að finna sér spennandi og vel launaða vinnu.

Sjá einnig: Þetta er dagur nemenda og kennara

Herdís Ósk Andrésdóttir útskriftarnemi í vélfræði, formaður skólafélagsins og meðlimur í skrúfunefndinni og Ólafur Sveinn Jóhannesson er deildarstjóri markaðs- og kynningarmála hjá Tækniskólanum

Uppskeruhátíð fyrir útskriftarnemendur

Ólafur Sveinn Jóhannesson er deildarstjóri markaðs- og kynningarmála hjá Tækniskólanum. Hann bendir í samtali við VM á að Skrúfudagurinn sé einn elsti kynningardagur nemenda á framhaldsskólastigi á landinu. Nemendur í vélstjórn og skipstjórn eigi sjái alfarið um framkvæmd dagsins í samstarfi við markaðs- og kynningardeild Tækniskólans og ýmsa aðila innan veggja skólans. „Þessi dagur er eins konar uppskeruhátíð fyrir útskriftarnemendur og þetta er hluti af lokaverkefni útskriftarnemenda – að taka þessa skipulagningu að sér.“

Ólafur bendir á að fjölskyldustemmning sé áberandi á Skrúfudeginum. „Maður sér fólk faðmast og kyssast út um allt. Þetta er ekki bara námskynningardagur heldur uppskeruhátíð fyrir eldri nemendur – sem endunýja kynnin. Samheldni þessara hópa er mjög einkennandi – og hún birtist glöggt hér í dag.“ Ólafur var eins og margir ánægður með mætinguna. „Ég var að koma inn af bílastæðinu og ég komst varla upp tröppurnar. Hingað eru margir komnir til að skoða sig um. Þetta er virklega vel sótt í ár.“

Hann segir að öðrum skólum sem bjóða upp á nám sem tengist sjávarútvegi hafi verið boðið að taka þátt í deginum að þessu sinni. Þessir skólar eigi í góðu samstarfi. „Hér eru með kynningu í dag Fisktækniskólinn, Háskólinn á Akureyri og Verkmenntaskólinn á Akureyri. Það er gaman að þessir skólar taki þátt í deginum með okkur.“

 

Stærsti Skrúfudagurinn í mörg ár

„Þetta er stærsti Skrúfudagurinn sem haldinn hefur verið lengi,“ segir Víglundur Laxdal, skólastjóri Véltækniskólans og Skipstjórnarskólans. Hann segir áberandi hve fyrrverandi nemendur skólans eru duglegir að mæta. „Eins og ég kom inn í opnunarræðunni; þessi tengsl og þessar tilfinningar sem menn bera til námsins og skólans eru mjög sterkar. Maður sér gamla nemendur koma hingað ár eftir ár og jafnvel heilu útskriftarhópana saman. Þeir nota þennan dag til að hittast og endurnýja kynnin,“ segir Víglundur þegar VM náði tali af honum.

Hann segir að fyrir sig persónulega hafi þessi dagur mikla þýðingu. „Það er mér mjög dýrmætt að fá að fylgja nemendum sem eru að útskrifast í gegn um þennan dag – tveimur mánuðum fyrir útskrift. Þetta hefur mikla þýðing fyrir mig og gerir þessa tengingu svo sterka.“

Víglundur Laxdal, skólastjóri Véltækniskólans og Skipstjórnarskólans.

Eins og áður segir hafa útskriftarnemendur staðið að þessum degi í rúma sex áratugi. Víglundur segir að undanfarin ár hafi nemendur sem skemmra eru á veg komnir í náminu einnig komið að skipulagningu og undirbúningi. Þeir verði þannig betur í stakk búnir til að skipuleggja daginn þegar röðin kemur að þeim. „Þá eru þeir búnir að fara í gegn um þetta áður og þurfa ekki að finna upp hjólið á hverju ári.“

Innviðir voru þema dagsins í ár en náttúruöflin hafa rækilega minnt okkur Íslendinga á hversu miklu máli þeir skipta – með jarðhræringum á Reykjanesi. Víglundur bendir á að Landsvirkjun, Landhelgisgæslan, Björgunarskólinn, Slökkviliðið og Landsbjörg séu á meðal þeirra sem koma að deginum að þessu sinni. Það sé vel við hæfi enda séu þetta mikilvægar stofnanir í íslensku samfélagi.

Eimskip var líka með bás á deginum og kynnti sína starfsemi. Ákveðin tímamót verða við útskrift í vor sem tengist fyrirtækinu. Fyrsti nemandinn við skólann sem lýkur 10 mánaða starfsþjálfun sem nemi um boð í skipi Eimskips er að útskrifast. Víglundur segir að þetta sé námsfyrirkomulag sem þekkist vel erlendis og byggi á ferilbók sem Alþjóðasiglingamálastofnunin gefur út. Nemandinn hafi fylgt bókinni í 10 mánuði og sé nú að ljúka námi. „Það er svo gaman að segja frá því að í dag handsalaði ég samning við Landhelgisgæsluna um að taka tvo nema á sín skip. Það verður þess vegna áframhald á þessu námsfyrirkomulagi,“ segir hann að lokum

Formaður og starfsfólk VM tók að venju þátt Skrúfudeginum. Ljósmyndari VM tók meðfylgjandi myndir (hægt að fletta með því að smella).