2023
Við þurfum samstöðu
Pistlar

Við þurfum samstöðu

Það var þungbært að þurfa að slíta viðræðum um nýjan kjarasamning vegna vélstjóra á sjó við SFS núna í desemberbyrjun. Þær skiluðu engu sem hönd á festir. Það eru mér mikil vonbrigði að sjómenn fari enn á ný samningslausir inn í nýtt ár. Vonbrigðin eru þó fyrst og fremst vélstjóra, sem ekki fengið tímakaup sitt leiðrétt frá árinu 2019.

Við sem sitjum við samningaborðið höfum bent á að útgerðin malar gull um þessar mundir. Hagstofan hefur tekið saman að útgerðin hagnaðist um 78 milljarða, 78 þúsund milljónir, á síðasta ári. Það ár voru 22 milljarðar greiddir út í arð. Ef SFS myndi fallast á allar okkar ítrustu kröfur myndi kostnaðurinn ef til vill slaga upp í tvo milljarða. Ég benti í nýlegum pistli á kröfur vélstjóra væru ekki brauðmolar heldur mylsna, þegar brauðhleifur útgerðarinnar er skoðaður. Þetta er dropi í hafið og óskiljanlegt að útgerðin skuli ekki sjá sóma sinn í því að semja við starfsfólkið sitt.

Vélstjórar sem starfa á sjó eru afar eftirsótt stétt. Samkeppnin um þá er mikil og hún kemur í vaxandi mæli frá landi, svo sem frá stóriðju og fyrirtækjum í orkugeiranum. Samningsstaða þessarar stéttar ætti að öllu eðlilegu að vera firnasterk. En til þess þurfa sjómenn að standa saman og vera óhræddir við að fara í aðgerðir. Ég tel að tími samtala við viðsemjendur okkar sé liðinn. Við þurfum að skipta um gír í nálgun okkar gagnvart samningaviðræðum við SFS. Samningsviljinn þeim megin er enginn.

Vinnum gegn verðbólgu

Það er ekki síður mikið undir hjá félagsfólki okkar á landi. Kjarasamningurinn við Samtök atvinnulífsins rennur út í upphafi næsta árs. Eins og fram hefur komið hefur Alþýðusamband Íslands reynt að ná sameiginlegri lendingu aðildarfélaga þegar kemur að kröfugerð. Þegar þetta er skrifað hefur mikið verið fundað en engin ákvörðun liggur fyrir. Það er í mínum huga alveg ljóst að nýr kjarasamningur við SA þarf að taka mið af stöðu efnahagsmála í landinu.

Þegar þjóðarsáttin var gerð voru allir sammála um mikilvægi þess að koma böndum á verðbólguna, jafnt launafólk sem atvinnurekendur. Það væri ofboðslega sárt ef okkur bæri ekki gæfa til þess núna. Við höfum séð hvernig verðbólgan getur leikið samfélagið – launahækkanir síðasta samnings eru fyrir löngu að engu orðnar. Á þessu ástandi græðir enginn og allra síst launafólk.

Við þurfum líka sérstaklega að gæta þess að þeir hópar sem standa höllum fæti í samfélaginu fái viðunandi kjarabætur. Þar er ég að hugsa til öryrkja og aldraðra en ekki síður barnafólks. Fjarað hefur hratt undan bótakerfunum okkar síðasta áratuginn, hvort sem horft er á vaxtabætur, barnabætur eða húsnæðisbætur. Við viljum öll búa í samfélagi sem grípur þá sem missa fótanna. Við getum ekki skilið þessa hópa eftir.

Ég hlakka annars til að mæta til funda með vélstjórum milli jóla og nýárs, eins og löng hefð er fyrir. Ég vona að þar muni ég skynja aukinn vilja til aðgerða. Það eru milliliðalausir fundir með félagsfólki sem veita mér kraft og innblástur til að halda baráttunni áfram.

Ég færi félagsfólki og landsmönnum öllum mínar bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á komandi ári.

Guðmundur Helgi Þórarinsson.

Pistillinn birtist fyrst í Tímariti VM, sem kom út 18. desember 2023.