2023
VM styrkir Vitafélagið – íslensk strandmenning
Fréttir

VM styrkir Vitafélagið – íslensk strandmenning

 

Tveir áratugir eru í ár liðnir frá því að Vitafélagið – íslensk strandmenning var stofnað. Um er að ræða frjáls félagasamtök sem telja nú á þriðja hundrað félaga. Félagið var stofnað árið 2003 en á meðal stofnfélaga voru Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd, Siglingastofnun og Sjóminjasöfn, auk einstaklinga. Formaður félagsins er Sigurbjörg Árnadóttir.

Markmið félagsins er m.a. að viðhalda handverki og annarri þekkingu á sviði strandmenningar.

VM hefur ákveðið að styrkja félagið á þessum tímamótum.

Vitafélagið – íslensk strandmenning hefur það meginmarkmið að efla vitund Íslendinga um þau miklu menningarverðmæti sem liggja í og við strendur landsins, að aðstoða við uppbyggingu strandmenningar, skapa tengsl og efla samstarf við frjáls félagasamtök á Norðurlöndum sem vinna að eflingu strandmenningar. Strandmenning er nýyrði sem Vitafélagið hefur kynnt og lagt áherslu á í allri sinni starfsemi.

Markmið félagsins

Markmið félagsins eru annars þannig skilgreind:

  • auka áhuga og þekkingu á vitum og öðrum strandminjum.
  • vinna að söfnun, skráningu og miðlun upplýsinga um vita og strandminjar.
  • stuðla að verndun vita og strandminja sem mikilvægum hluta af menningararfi þjóðarinnar.
  • stuðla að fjölbreytilegri notkun vitans og annarra strandminja sem samrýmist verndun og sögu viðkomandi staðar.
  • koma á samvinnu við minjasöfn og aðrar opinberar stofnanir.
  • koma á samvinnu við erlend strandmenningarfélög, vitafélög og stofnanir með sambærileg markmið. Markmið félagsins er einnig að viðhalda handverki og annarri þekkingu á sviði strandmenningar með verndun og nýtingu hennar að leiðarljósi, til atvinnuuppbyggingar og nýsköpunar.

Sigurbjörg Árnadóttir er formaður félagsins.

Fjölbreytt verkefni

Vitafélagið – íslensk strandmenning hefur ýmsu komið í verk á tveggja áratuga sögu þess. Eitt af fyrstu verkum þess var að standa að fyrstu friðlýsingu sjö íslenskra vita, í desember 2003. Félagið hefur yfir vetrarmánuðina staðið fyrir mánaðarlegum fræðslufundum undir yfirskriftinni Spegill fortíðar – silfur framtíðar.

Árlega heldur Vitafélagið vorþing í sjávarbyggðum landsins með fyrirlestrum og fræðsludagskrá um íslenska strandmenningu. Félagið hafði frumkvæði að norrænu strandmenningarhátíðunum sem haldnar voru árlega á árunum 2011-2018, sem haldnar hafa verið víða á Norðurlöndunum og yfir hundrað Íslendingar hafa sótt hverju sinni.

Félagið hefur sinnt upplýsingagjöf með reglubundnum hætti á starfstíma sínum. Þannig eru gefin út tvö fréttabréf á ári þar sem sagt er frá því sem helst er á döfinni. Félagið hefur auk þess staðið fyrir ráðstefnum, hátíðum, málþingum og gefið út fyrirlestra.

Kynnisferð og ráðstefna

Á vor stóð félagið fyrir kynnisferð til Svíþjóðar þar sem sænskur bátasmíðaskóli var heimsóttur. Þar kynntust Íslendingar því hvernig Svíar standa vörð um verkþekkingu við smíði tréskipa og báta. Í ferðinni voru tveir lýðháskólar heimsóttir auk þess sem hópurinn fékk kynningu á starfsemi Stockholms Båtsnickeri – bátasmiðju sem staðsett er í úthverfi borgarinnar. Þar starfa fimmtán bátasmiðir í fullu starfi við viðgerðir, viðhald og nýsmíði á tréskipum.

Í september stóð félagið að ráðstefnu í Hróarskeldu og Holbæk í Danmörku, ásamt öðrum grasrótarsamtökum á Norðurlöndum sem stóðu að undirbúningsvinnu við að koma súðbyrðingnum á lista UNESCO árið 2021. Á ráðstefnunni var vöngum velt yfir stöðunni og verkefnum framtíðarinnar.

Það er því óhætt að segja að mikil starfsemi sé í Vitafélaginu – íslensk strandmenning.

Þeir sem vilja kynna sér starfsemina nánar geta fylgst með á heimasíðu félagsins.

Grásleppa þurrkuð.