Húsfyllir á námskeiði um lífeyrismál
Húsfyllir var á vel heppnuðu námskeiði um lífeyrismál sem fram fór í Húsi fagfélaganna á Stórhöfða 29-31 í gærkvöldi. Um 90 þátttakendur voru skráðir á námskeiðið, svo nota þurfti tvo fundarsali.
Björn Berg Gunnarsson annaðist fræðsluna en hann hefur haldið hundruð fyrirlestra og námskeiða hjá fyrirtækjum, stofnunum, félagasamtökum og skólum. Á þessu ítarlega og gagnlega námskeiði var vandlega farið yfir allt sem nauðsynlegt er að vita varðandi lífeyrismál og fjármálahlið starfsloka.
Meðal þeirra spurninga sem svarað var voru:
- Hvenær og hvernig hentar að sækja lífeyrisgreiðslur?
- Hvernig göngum við á séreignarsparnað og hvaða áhrif hefur tilgreind séreign?
- Hvað þarf að vita varðandi greiðslur og skerðingar almannatrygginga?
- Er skynsamlegt að sækja hálfan lífeyri?
- Hvernig deili ég lífeyri með makanum mínum?
- Hvaða skatta kem ég til með að greiða?
Á námskeiðinu öðlast þátttakendur betri yfirsýn yfir réttindi sín og þá valkosti sem í boði eru. „Bætt þekking dregur úr líkum á kostnaðarsömum mistökum og gefur færi á að hámarka virði lífeyris og réttinda,” eins og segir í kynningu á námskeiðinu á heimasíðu Björns.
Ljóst er að áhuginn á námskeiði sem þessu er mikill. Fagfélögin stefna á að halda annað námskeið um lífeyrismál áður en langt um líður og verður það auglýst hér á síðunni.
Myndir frá námskeiðinu má sjá hér fyrir neðan.