Þakkir fyrir skilning og umburðarlyndi – fleiri hús vantar
Ágætu félagsmenn.
Grindvíkingar eru þegar fluttir inn í nokkrar af þeim orlofseignum sem félagið hefur unnið að því að rýma undanfarna daga. VM bindur vonir við að vel fari um fólkið í húsunum, jafnvel þótt aðstæðurnar séu þungbærar. Við vonum öll, þeirra vegna, að ástandinu linni fyrr en síðar.
VM hefur eins og öðrum stéttarfélögum runnið blóðið til skyldunnar vegna þeirrar stöðu sem Grindvíkingar þurfa nú að takast á við. Viðbrögð félagsmanna við þessari ákvörðun félagsins hafa verið með eindæmum góð. Fyrir skilning og umburðarlyndi félagsmanna er vert að þakka.
Í morgun barst stéttarfélögum áskorun frá stjórnvöldum um að losa fleiri orlofshús. Húsnæðisþörfin sé knýjandi og að enn vanti hús. Fram kemur að miklu máli skipti að hafa hraðar hendur, enda hafi Grindvíkingar verið að heiman í 10 daga.
Fleiri félagsmenn sem eiga bókuð orlofshús geta því átt von á símtali.
Greiðsluhlé
VM er í hópi þeirra stéttarfélaga sem skorað hafa á lánastofnanir að veita Grindvíkingum fullt greiðsluhlé vegna þeirra hörmunga sem á þeim dynja. Bönkum er á tyllidögum tíðrætt um samfélagslegt hlutverk sitt og ábyrgð. Afkoma þeirra undanfarin ár sýnir glöggt að þeir hafa borð fyrir báru til að mæta Grindvíkingum við þessar aðstæður.
Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður VM.