2023
Orlofshús tekin frá fyrir Grindvíkinga
Pistlar

Orlofshús tekin frá fyrir Grindvíkinga

Skelfilegt er að fylgjast með þeim hamförum sem nú eiga sér stað í Grindavík og nágrenni. Erfitt er að setja sig í spor Grindvíkinga og máta sig við þær raunir sem við þeim blasa. Afar þungbært er að þurfa að yfirgefa heimili sín við þessar aðstæður og horfa upp á þá eyðileggingu sem orðið hefur. Óvissan um framtíðina er nagandi.

VM vinnur nú að því, í samráði við Almannavarnir, að taka frá orlofseignir félagsins, til handa Grindvíkingum. Þeir félagsmenn sem bókuð eiga orlofshús á næstunni geta átt von á afbókunum. Jafnframt verður ekki hægt að bóka orlofseignir á næstunni.

Við biðjum félagsmenn að fylgjast vel með upplýsingum sem berast frá félaginu vegna þessa. Hugur okkar allra er hjá Grindvíkingum og ástvinum þeirra – þeirra aðstæður ganga fyrir.

Óvíst er með öllu hvenær jarðhræringum á þessu svæði lýkur og neyðarstigi verður aflétt. Það gæti tekið vikur eða mánuði. Þannig er alls óljóst hversu lengi Grindvíkingar þurfa á orlofseignum félagsins að halda. Við förum þess á leit við félagsmenn að þeir sýni þessu ástandi skilning og umburðarlyndi.

Með fyrir fram þökkum,

Guðmundur Helgi Þórarinsson
formaður VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna.