2023
Óskiljanleg ákvörðun matvælaráðherra
Pistlar

Óskiljanleg ákvörðun matvælaráðherra

Sú ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra að stöðva hvalveiðar án fyrirvara er óskiljanleg og óverjandi. Í ákvörðuninni felst jafnframt ólíðandi framkoma við afkomu fólks og fyrirtækja.

Að óbreyttu hefur ákvörðunin í för með sér að 150 til 200 manns; sjómenn og landverkafólk verða fyrir miklu tekjutapi. Um er að ræða veiðar sem staðið hafa undir góðum tekjum. VM er kunnugt um að vélstjórar úr röðum félagsins hafi þegar skrifað undir ráðningarsamninga vegna vertíðarinnar, sem var í þann mund að hefjast. Margir höfðu gert ráðstafanir þar að lútandi og samið við aðra vinnuveitendur eða ráðstafað sumarleyfum með hliðsjón af vertíðinni.

Nýting stofna við Íslandsstrendur, hvort sem um er að ræða fiskistofna eða hvali hefur verið stunduð með sjálfbærum hætti. Sú staðreynd hefur vegið þungt alþjóðavettvangi, þegar umgengni um sjávarauðlindir eru ræddar. Ef álit fagráðs um velferð dýra dugar til að rökstyðja svo afdrifaríka ákvörðun sem hér um ræðir og allar veiðiaðferðir skuli miða við að dýr séu aflífuð á skjótan og sársaukalausan hátt, er vandséð hvort mannskepnan geti yfir höfuð stundað veiðar.

Hvalveiðibann matvælaráðherra kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti fyrir alla hlutaðeigandi, sérstaklega þegar litið er til fyrri yfirlýsinga ráðherra um að ómögulegt væri að stöðva veiðarnar. Það er óverjandi að kynna slíka ákvörðun daginn áður en veiðar eiga að hefjast. Slík stjórnsýsla er ekki samfélagi okkar sæmandi.

VM, félag vélstjóra og málmtæknimanna, krefst þess að matvælaráðherra dragi ákvörðun sína til baka svo fljótt sem auðið er.

Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður VM