2023
Er ástandið í þjóðfélaginu á ábyrgð launafólks?
Pistlar

Er ástandið í þjóðfélaginu á ábyrgð launafólks?

Enn einu sinni og í þrettánda skipti í röð hækkar Seðlabankinn stýrivexti. Nýjasta hækkunin nemur 1,25 prósentustigi. Þessi hækkun, eins og allar hinar, bitnar harðast á þeim sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. Afborganir lána sem bera breytilega vexti hafa stórhækkað, svo nemur fleiri tugum þúsunda á mánuði. Snjóhengja vaxtakostnaðar býður hinna sem festu vexti tímabundið. Höfuðstóll verðtryggðra lána hefur blásið út og leiguverð tekur mið af vaxtaumhverfi og húsnæðisskorti.

Á sama tíma og heimilunum blæðir hafa stórfyrirtæki í landinu skilað methagnaði. Hagnaður matvöruverslana hefur aukist í skugga síhækkandi matvælaverðs. Álagning á eldsneyti hefur hækkað verulega og bankarnir mala gull á kostnað almennings. Þannig skilaði Íslandsbanki einn og sér 6,2 milljarða hagnaði á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Arðsemin var 11,4%. Allt þetta bitnar á almenningi.

Þegar fyrstu samningarnir um kaup og kjör voru undirritaðir í desember, samningar sem rutt hafa brautina fyrir aðrar samningaviðræður, var búist við 5 til 6 prósentustiga verðbólgu. Raunin hefur orðið sú að verðbólga er um 10 prósent. Það viðkvæði heyrist nú í umræðunni að verðbólgan sé fyrst og síðast verkalýðshreyfingunni að kenna.

Það er fjarri lagi. Á sama tíma og verðbólga er um 10 prósent er ljóst að launahækkanir verkafólks voru afar hóflegar. Það er tómt tal að skella ábyrgðinni á launafólk – í enn eitt skiptið. Það gengur ekki til lengdar að launafólk beri stöðugleikann á herðum sér.

Eins og Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, hefur sagt verða þeir harðast fyrir verðbólgunni sem minnst hafa á milli handanna, þeir sem lægstar hafa tekjurnar. „Þeir sem tapa mest á verðbólgu er almenningur, venjulegt fólk, sérstaklega þau sem hafa lægstu tekjurnar sem hafa minnst borð fyrir báru,“ sagði hann nýlega í viðtali.

Stjórnvöld og atvinnulífið ber ríka ábyrgð á því ástandi sem hér hefur skapast. Ekkert minna en þjóðarsátt þarf til að berja niður verðbólguna. Þar þurfa stjórnvöld og ekki síður atvinnulífið að ganga fram með góðu fordæmi. Hækkun launa þingmanna, langt umfram það sem aðrir hafa fengið, yrði sem olía á eld þess ástands sem hér hefur verið skapað.