2023
„Það verður ekki öfundsvert að dæma stykkin“
Fréttir

„Það verður ekki öfundsvert að dæma stykkin“

Tíu keppendur spreyta sig í málmsuðu á Íslandsmóti iðn- og starfsgreina

„Þau eru að fást við alla flóruna þegar kemur að suðuaðferðum; pinnasuðu MIG/MAG-suðu og TIG-suðu. Auk þess eru þau að vinna með mismunandi efni, svo sem ryðfrítt stál og ál. Þau eru bæði að sjóða fallandi og stígandi.“ Þetta segir Hilmar Brjánn Sigurðsson, fræðslufulltrúi hjá IÐUNNI fræðslusetri og umsjónarmaður málmsuðu á Íslandsmóti iðn- og starfsgreina.

Af öryggisástæðum var ekki hægt að keppa í suðu í Laugardalshöllinni – eins og í hinum ríflega 20 iðngreinunum – heldur var keppnin haldin í húsakynnum IÐUNNAR.

Hilmar segir að hann hafi ákveðið að færa suðukeppnina upp á annað plan. Áður hafi þátttakendur leyst verkefnið á tveimur til þremur klukkustundum en að þessu sinni hafi hann ákveðið að láta þau vinna stærra og mun flóknara suðustykki. „Þau eru núna búin að vera að þessu í tvo daga,“ segir Hilmar en VM ræddi við hann síðdegis á föstudegi. „Það eru tveir tímar síðan fyrstu keppendurnir kláruðu en þetta verkefni er mjög krefjandi.“

Hilmar hefur verið mjög ánægður með keppendurna. „Það eru hérna tíu krakkar frá sjö skólum – þar af eru tvær stúlkur. Ég er satt að segja mjög ánægður með hvernig þau hafa leyst þetta erfiða verkefni,“ segir hann.

Stykkin verða að keppni lokinni flutt upp í Laugardalshöll þar sem tveir dómarar munu dæma þau. „Það verður ekki öfundsvert að dæma stykkin – það er alveg ljóst. Þessi keppendur eru ótrúlega jafnir finnst mér.“

Sigurvegaranum býðst að taka þátt í Euroskill í Danmörku 2025, að undangenginni þjálfun.

Uppfært: Sigurvegari í málmsuðu var Hafþór Karl Barkarson úr Verkmenntaskólanum á Akureyri. VM óskar Hafþóri til hamingju.