Pistlar
Skýr skilaboð frá sjómönnum
Pistlar

Skýr skilaboð frá sjómönnum

Í gær varð ljóst að vélstjórar á fiskiskipum úr röðum VM felldu kjarasamning við SFS sem undirritaður var 9. febrúar síðastliðinn. Rétt liðlega 60% félagsmanna höfnuðu samningnum en rúm 38% vildu samþykkja hann.

Félagsmenn annarra stéttarfélaga sjómanna, ef félagsmenn Félags skipstjórnarmanna eru undanskildir, höfnuðu samningnum einnig með afgerandi hætti.

Sjómenn hafa verið samningslausir í þrjú ár. Niðurstaðan sendir skýr skilaboð til okkar sem semjum fyrir þeirra hönd að betri samning þarf að gera. Ekki síður sendir þetta þau skilaboð til viðsemjenda okkar að sjómenn vilja skipta aflaverðmæti með sanngjarnari hætti. Vilji þeirra er ljós.

Það verkefni bíður okkar nú að setjast aftur við samningaborðið og knýja á um frekari kjarabætur. Ef marka má fréttir undanfarinna daga af greiddum arðgreiðslum til eigenda nokkurra af stærri sjávarútvegsfyrirtækjum landsins er ljóst að greinin stendur vel. Þann meðbyr þarf að nýta til að semja með sómasamlegum hætti við sjómenn.

Guðmundur Helgi Þórarinsson