
Undirbúningur hafinn fyrir sjómannadaginn
Brim, Faxaflóahafnir og Sjómannadagsráð hafa hafið undirbúning að hátíðahöldum í Reykjavík vegna sjómannadagsins, 4. júní. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skipuleggjendum. Samstarfssamningur vegna sjómannadagsins var undirritaður á dögunum í húsakynnum Brims á Granda. Hópurinn skoðaði einnig við það tækifæri hátæknivinnslu fyrirtækisins.
Um þrír mánuðir eru til stefnu. Áhersla verður lögð á skemmtun fyrir alla fjölskylduna, enda er um fjölskylduhátíð að ræða.
„Sjómannadagurinn er dagur okkar allra og skipar hann stóran sess meðal landsmanna. Hér áður fyrr skipti miklu fyrir sjómenn að fá þennan dag, enda eru þeir oft fjarri heimahögum þegar flestir eiga frí. Sjómönnum finnst líka mikil upphefð að eiga sérstakan dag og geta kynnt líf sitt og störf fyrir almenningi, hvernig við nýtum sjóinn sem matarkistu og til flutninga svo eitthvað sé nefnt,“ segir Aríel Pétursson, stjórnarformaður Sjómannadagsráðs.