2023
Formaður VM á RÚV: Forsendur kjarasamninga löngu brostnar
Fréttir

Formaður VM á RÚV: Forsendur kjarasamninga löngu brostnar

„Það eru bara algjörlega aðrar forsendur núna heldur en voru í desember,“ segir Guðmundur.

Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður VM, segir forsendur kjarasamninga sem iðnaðarmenn skrifuðu undir í desember löngu brostnar. Þetta kemur fram í viðtali við Guðmund á RÚV. Gert hafi verið ráð fyrir að ársverðbólga yrði á bilinu 5,5 til 6,5%, þegar skrifað var undir samninga sem giltu til eins árs. Verðbólgan er núna yfir 10%.

Guðmundur segir í viðtalinu að SA hafi verið algjörlega mótfallið því að draga rauð strik í kjarasamninginn – að setja þak á verðbólguna. „Og við bara náum því ekki að það virðist vera í lagi að flytja þetta allt yfir á launafólkið,“ segir hann.

Hann segir að þessi staða hafi áhrif á yfirstandandi kjaraviðræður við aðra hópa. „Það eru fullt af samningum  í gangi eins og við allan orkugeirann hjá okkur. Þetta hefur áhrif á svoleiðis samninga. Það eru bara algjörlega aðrar forsendur núna heldur en voru í desember,“ segir Guðmundur. Kjaraviðræðum við orkufyrirtækin, þar á meðal Landsvirkjun, hefur verið vísað til ríkissáttsemjara.