2022
Föstudagspistill
Pistlar

Föstudagspistill

Stundum er gott að líta um öxl og meta það sem gert hefur verið. Eitt af því sem samið var um í síðustu samningum við SA var hagvaxtarauki. Það er launaauki á grundvelli þróunar vergrar landsframleiðslu á hvern íbúa. Útreikningur launaaukans byggir á bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands um vísitölu vergrar landsframleiðslu á mann sem birtast í byrjun mars ár hvert fyrir næstliðið ár. Launaaukinn bætist bæði við mánaðarlaunataxta kjarasamninga og föst mánaðarlaun fyrir dagvinnu.

Launaaukinn greiðist 1. maí. Launa- og forsendunefnd ákvarðar fjárhæð launaaukans verði tilefni til greiðslu hans.

Á árinu 2022 þýðir þetta að launaauki á mánaðarlaunataxta kjarasamninga verður 10.500 kr. á mánaðarlaunataxta kjarasamninga og á föst mánaðarlaun fyrir dagvinnu 7.875 kr. Þarna er verið að skipta þeim ábata sem myndast hefur á milli launafólks og atvinnurekenda. Það er sanngjarnt að launafólk njóti líka þegar vel gengur.

Það voru ekki allir hrifnir af þessu ákvæði í samningnum í upphafi. Tel ég að þetta ákvæði hafi sannað gildi sitt hér með og vil benda á það að þó að kjarasamningar renni út í nóvember í ár þá getur hagvaxtaraukinn einnig gefið launahækkanir á árinu 2023.

Samið hefur verið um hagvaxtarauka í langflestum samningum VM frá 2019 og má því segja að stór hluti félagsmanna VM fái þennan launaauka frá og með 1. maí 2022.

Ég óska ykkur góðrar helgi.

Guðm. Helgi formaður VM.