Saga vélstjórastéttarinnar á Íslandi

Að varðveita söguna

Í amstri dagsins tökum við sem sjálfsögðum hlut þeim gæðum sem við höfum allt í kringum okkur og hugsum of lítið um hvað liggur á bak við þau, hvernig þau urðu til. Það er ekki svo að öll okkar gæði hafi orðið til af sjálfu sér, af engu. Þau hafa oft orðið til með tækniþróun, samhliða baráttu launafólks um bætt kjör.

Til þess að sagan gleymist ekki, eru það ómetanleg verðmæti að koma bók sem þessari í verk og reyna að skila sögu vélstjórastéttarinnar til komandi kynslóða og einnig fyrir okkur hin. Það eru fáar stéttir sem hafa komið að eins mörgum greinum atvinnulífsins í gegnum áratugina og vélstjórastéttin, hvort sem er til lands eða á sjó. Að breytast úr fátæku samfélagi með einhæfu atvinnulífi þar sem mest allt var unnið með höndum og yfir í tæknivætt samfélag sem byggir á atvinnugreinum þar sem vélbúnaður hefur verið settur upp og keyrður af vélstjórum, hefur verið þjóðinni mikils virði. Það er ekki síst þess vegna að við erum á þeim stað sem við erum í dag með íslenskt samfélag og atvinnulíf í fremstu röð og á flestum sviðum í heiminum.

Félagsmál, kjarabarátta, menntamál og breyttir atvinnuhættir eru hryggjarstykkið í sögu allra stétta og öllum þeim þáttum eru gerð góð skil í bókinni.

Dæmi um sífelldar breytingar er að við útgáfu þessarar bókar verður hún prentuð í fáum eintökum, aðallega fyrir bókasöfn og til gjafa. Bókin sjálf verður sett upp sem rafbók og verður aðgengileg öllum sem hafa áhuga á að lesa hana í tölvutæku formi á netinu. Það er mjög ánægjulegur áfangi að félagið sé að koma þessari sögu frá og það er metnaður stjórnar VM að halda áfram að sinna því að skila sögu starfsgreina okkar til komandi kynslóða, svo sagan gleymist ekki.

Fyrir hönd stjórnar VM þakka ég öllum sem að gerð þessarar bókar komu og þá sérstaklega höfundinum, Sigurgeiri Guðjónssyni sagnfræðingi, myndritstjóranum, Hallveigu Kristínu Eiríksdóttur, og Valgeiri Ómari Jónssyni sem sá um utanumhald fyrir VM.

Guðmundur Ragnarsson,
formaður VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna.

Í ritnefnd voru Ásgeir Guðnason, Georg Árnason, Páll Magnússon,
Sævar Örn Kristjánsson og Þorbergur Þórhallsson.

Hér er hægt að lesa söguna á pdf formi