2022
12 hnútar – verkefni um öryggi sjómanna
Fréttir

12 hnútar – verkefni um öryggi sjómanna

Samgöngustofa hefur undanfarið, ásamt ýmsum hagsmunaaðilum, unnið að verkefni um öryggi sjómanna. Verkefnið kallast 12 hnútar og er röð rafrænna veggspjalda sem fjalla um fyrirbyggjandi aðgerðir svo öryggi sjómanna sé sem best tryggt. Spjald númer 5 er nú komið út með yfirskriftinni „Þekkingarleysi.“ Þar er fjallað um þá hættu sem stafar af þekkingarleysi við störf á sjó. Sá sem er tilbúinn að afla sér þekkingar er líklegri til að tryggja öryggi sitt og félaga sinna og það ber vott um sjálfsöryggi og skynsemi að fólk sé óhrætt við að viðurkenna vanþekkingu sína og afla sér vitneskju.

Á spjaldinu er komið inn á mikilvæg fyrirbyggjandi atriði svo komið sé í veg fyrir þessa hættu. Í því sambandi er einna mikilvægast að fólk fylgi ætíð nýjustu reglum og leiðbeiningum. Að fólk spyrji ef það veit ekki og að menn giski ekki – heldur séu vissir. Fram kemur einnig mikilvægi þess að sjómenn taki ávallt þátt í þjálfun og endurmenntun því enginn telst fullnuma sama hver reynslan er.

Spjöldin eru gefin út bæði á íslensku og ensku og eru aðgengileg hér www.samgongustofa.is/12hnutar