12.4.2019

Fundur Norræna vélstjórasambandsins

Fundur Norræna vélstjórasambandsins (NMF) var haldinn í Færeyjum dagana 8. og 9. apríl. Fyrir hönd VM sóttu Guðmundur Helgi Þórarinsson og Halldór Arnar Guðmundsson fundinn. Innan NMF eru samtals um 30.000 vélstjórar i Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, Íslandi og Færeyjum.

Á fundum NMF er fjallað um sameiginleg mál vélstjóra á Norðurlöndunum. Á fundum sambandsins undanfarið hefur töluvert verið fjallað um möguleg áhrif þróunar orkumála, umhverfistækni, sjálfvirkni og stjórnunar á störf vélstjóra í nánustu framtíð, en ljóst er að vélstjóra bíða spennandi viðfangsefni á þessum sviðum.

Á fundinum tók formaður Danska vélstjórafélagsins, Jan Rose Andresen, við sem forseti sambandsins og lauk þar með þriggja ára forsetatíð formanns VM.

Á dagskrá fundarins var m.a. heimsókn til Færeyska orkufyrirtækisins SEV, sem hefur sett sér það markmið að árið 2030 verði rafmagn fyrir eyjarnar framleitt að öllu leyti með endurnýtanlegum orkugjöfum. Fyrirtækið hefur fjárfest í vindorkuverum og vatnsaflsstöðvum og hefur áætlanir um að virkja einnig sjávarföllin.