27.1.2014

Nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík

Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík heldur áttundu verðlaunahátíð sína til heiðurs 20 nýsveinum sem luku burtfararprófi í iðngreinum með afburðaárangri 2013. Jafnframt viðurkenningum nýsveina verður heiðursiðnaðarmaður ársins tilnefndur.

Hátíðin verður í Tjarnarsal Ráðhússins í Reykjavík laugardaginn 1. febrúar og hefst kl. 16:00.

Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, er verndari hátíðarinnar. Mennta- og menningarmálaráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík munu ávarpa nýsveina og gesti. Háskólinn í Reykjavík og Alcoa Fjarðaál veita námsstyrki.

Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík var stofnað 1867 og fagnar nú 147 ára afmæli. Tilgangur þess frá upphafi er að „efla menningu og menntun iðnaðarmanna og styrkja stofnanir sem starfa í þeirra þágu“.

Iðnaðarmannafélagið stóð fyrir stofnun Iðnskólans í Reykjavík 1904 og er nú einn af hluthöfum Tækniskólans – skóla atvinnulífsins. Félagið reisti Iðnó 1896, stóð fyrir fyrstu iðnsýningunni 1883, gaf þjóðinni styttu Ingólfs Arnarsonar á Arnarhóli 1924 – svo fátt eitt sé nefnt. Félagið er aðili að Verkiðn sem stendur fyrir Íslandsmóti iðn- og verkgreina og haldið verður í Kórnum í Kópavogi Íslandsmót iðn- og verkgreina verður haldið í Kórnum í Kópavogi 6. – 8. mars 2014.