2022
Ofurgróði og samþjöppun
Pistlar

Ofurgróði og samþjöppun

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherrav ar að skipa annarsvegar stóra samráðsnefnd með aðkomu allra þingflokka og helstu hagsmunaaðila en líka sérfræðingahópa sem eru ekki með beinar flokkspólitískar tengingar. Starfshóparnir eiga að greina áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum ásamt því að meta þjóðhagslegan ávinning.

Nefnd­in fjalli einnig um hvernig hægt er að auka gagn­sæi í rekstri fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi og þá sér­stak­lega meðal stærstu fyr­ir­tækja lands­ins og ekki veitir af.

Þá eru stöðugar fréttir um stór gróða útgerðarinnar. Síldarvinnslan hagnaðist um tæp­lega 3,6 millj­arða ís­lenskra króna á fyrsta fjórðungi árs­ins og hagnaður Brims nam á fyrsta árs­fjórðungi um 3,8 millj­örðum króna.

Á sama tíma gengur ekkert hjá stéttarfélögum sjómanna að semja við SFS, en kjarasamningar hafa verið lausir í 31 mánuð. Aðalkrafa þar er að sjómenn fái það sama greitt í lífeyrissjóð og annað launafólk, það er 15,5%.

Að lokum vil ég nefna viðtal sem birtist í Fréttablaðinu við  Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri og ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu. Hann telur eðlilegt miðað við afkomu sjávarútvegsfyrirtækja að ríkið fengi 40–60 milljarða króna á ári í veiðigjöld. Alls greiddu fyrirtækin 4,8 milljarða í veiðigjöld árið 2020. Og bætir svo við „að greina verði milli eðlilegs rekstrarhagnaðar og hagnaðar af sameiginlegri auðlind. Sá hagnaður tilheyri ekki fyrirtækjunum heldur þjóðinni.“

Það er nú þannig komið að flestir eru sammála að þessi samþjöppun á kvóta og hin mikla auðsöfnum til örfárra fjölskyldna er engum til góðs. Því hvet ég útgerðarmenn að ná sáttum við sjómenn og ganga til samninga. Það er engum til góðs að komandi haust einkennist af átökum vegna ofurgræðgi útgerðarmanna.

Góða helgi.

Guðmundur Helgi, formaður VM