2023
Föstudagshugleiðingar um kjaramál
Pistlar

Föstudagshugleiðingar um kjaramál

Mig langar að skrifa um framtíðarsýn mína í kjaramálum. Í stóru félagi eins og VM eru kjaramál flókin enda kjarasamningar margir og ætla ég að fara yfir helstu atriðin í því.

Þetta er mín sýn á hlutina. Félagsmenn, trúnaðarmenn og samninganefndir koma að gerð kjarasamninga og við samningaviðræður. Þetta eru þau mál sem mér finnst brýnt að vinna í og hlakka ég til að fá samninganefndir í hús fljótlega til þess að fara að vinna í kröfugerðum.

Fagfélögin að Stórhöfða hafa samþykkt að vera með sameiginlegan hagfræðing til þess að vinna verkefni í kringum kjarasamninga. Er þetta gert til þess að gera okkar störf betri og faglegri í gegnum kjarasamningana.

Félagsmenn VM á almennum kjarasamningi

Ljóst er að undanfarna kjarasamninga hefur verið samið um krónutöluhækkanir til þess að hækka sérstaklega lægstu launin. Ég tel að ekki verði hægt að semja svoleiðis aftur að þessu sinni þar sem launabil verkafólks og iðnaðarmanna hefur dregist mjög saman að undanförnu.

Það á ávallt að vera stefna okkar að fólk geti lifað af dagvinnulaununum sínum.

Helst þarf að útrýma yfirvinnu 1.

Semja þarf um sanngjarnt endurgjald fyrir fjarlausnir. Ljóst er að fjórða iðnbyltingin hefur skapað mörg störf sem hægt er að sinna fyrsta eftirliti hvar sem er. Semja þarf um laun fyrir að fylgjast með í gegnum fjarlausnir í frítíma.

Að kaupmáttur launa haldi áfram að vaxa.

Skrifa þarf sérstakan kafla inn í kjarasamning um störf sem eru unnin á sjó og í landi. T.d laxeldið. Semja á um sérstakt sjóálag.

Sjómenn á fiskiskipum 

Það er mikilvægt að greitt verði sama hlutfall í lífeyrissjóð fyrir sjómenn á fiskiskipum eins og fyrir annað launafólk á landinu. Hérna er mikilvægt að muna að greiðslur í lífeyrissjóð er líka örorkutrygging.

Kauptrygging á að hækka í sama takti og önnur laun í landinu þrátt fyrir að ekki sé í gildi kjarasamningur. T.d að launahækkanir séu tengdar launavísitölu eða töxtum VM í landi.

Að unnið verðmyndun aflans sé gegnsætt.

Það er samtal í gangi um kjarasamning sjómanna. Unnið er í augnablikinu í minni hópum í sértækum málum. Ég ætla mér að vera bjartsýnn á það að skriður fari að komast á viðræður.

Félagsmenn VM orkugeiri og stóriðja

Að launahækkanir félagsmanna VM í orkugeiranum og stóriðjunni haldi í laun almennasamningsins. Þ.e að passað sé upp á það að sömu launahækkanir komi þar inn auk launaskriðs sem hefur verið á almennum vinnumarkaði á árunum 2019-2022.

Einnig þarf að skoða vinnutímastyttingu fyrir vaktavinnumenn.

Sjómenn á föstum launum, tímakaupi og dagvinnu

Að laun endurspegli ábyrgð og menntun og að ávallt sé passað upp á að laun hækki eins og taxtar auk launaskriðs í landi.

Að fjarvera frá fjölskyldu sé metin til launa.

Að öryggismálum séu ávallt númer 1,2 og 3 og að mönnum skipa og báta sé fullnægjandi.

Félagsmenn VM hjá sveitarfélögum

Ljóst er að félagsmenn VM hjá sveitarfélögum eru á lægsta grunnkaupinu þó að heildarlaun eru oft ágæt. Þau koma til með mikilli vinnu. Leggja þarf mikla áherslu á hækkun grunnlauna.

Leggja þarf áherslu á að þegar menn vinna blönduð störf t.d á höfnum landsins að greitt verði sjóálag.

Skoða þarf hvort félagsmönnum VM sé betur borgið utan starfsmatskerfi sveitarfélaganna.

Ég er nú í þeirri stöðu að vera að endurnýja umboð mitt sem formaður VM. Mér finnst því mikilvægt að félagsmenn VM viti hvernig ég sé framtíð kjaramála fyrir mig en einnig að mín skoðun er sú að félagsmenn hafa ávallt lokaorðið við gerð kröfugerðar og við samningagerð.

Ég er maður samvinnu og ég trúi því að við bætum kjör okkar með samvinnu við iðnaðarmannafélögin þar sem það á við og við sjómannafélögin þar sem það á við.

Ég óska ykkur góðrar helgi.

Kv Guðm. Helgi formaður VM.