5.11.2021

Sjómenn samningslausir í tvö ár - hver er staðan?

Eins og flestir þið vita hafa kjarasamningar vélstjóra á fiskiskipum nú verið lausir í í rúm tvö ár.  Það er að verða regla frekar en undantekning að sjómenn séu kjarasamningslausir í fleiri fleiri ár á milli samninga sem er algerlega óboðlegt. Meginkrafa sjómanna hefur verið að auka gagnsæi fiskafurða þ.e að gert sé upp á réttum verðum og að sama mótframlag sé greitt í lífeyrissjóð fyrir sjómenn og annað launafólk í landinu.

Það kom einnig fram í tölum sem Deloitte kynnti á sjávarútvegsdeginum í Hörpu þann 19. október, að framlegðin á síðasta ári nam 72 milljörðum króna og hagnaður 29 milljörðum.

Ég hef setið við samningaborð vegna kjarasamninga sjómanna í rúm 20 ár og fundist við sjaldan hafa komið betur undirbúnir til leiks. Við höfum lagt mikla vinnu í að koma með tölulegar staðreyndir að borðinu um ýmis atriði. Við höfum sýnt fram á að útgerðin hefur hagnast að meðaltali um 20 milljarða á ári á síðustu 11 árum. Einnig höfum við mynnt á að þegar samið var um hærri greiðslur í lífeyrissjóði fyrir flest allt launafólk í landinu, svo kallaða tilgreinda séreign, kom ríkið á móts við fyrirtækin með lækkun á tryggingagjaldi, útgerðarmenn líka en þeir stungu þeirri lækkun í eigin vasa.

Við höfum líka reynt að vekja athygli á að allar líkur eru á því að hér á landi er ekki gert upp á réttum afurðarverðum, þetta sýna samanburðartölur frá Noregi og Færeyjum og ýjað er að því í skýrslu sem fjármálaráðherra lét vinna fyrir sig á árinu 2016. Þá skýrslu unnu Seðlabankinn, Hagstofan, Skattstjóri og fleiri. Sú skýrsla lenti svo í einni af þessum djúpu skúffum í einhverju ráðuneytinu.

Útgerðarmenn hafa svarað kröfum sjómanna á þá leið að ef sjómenn ætla að fá sama mótframlag og annað launafólk í lífeyrissjóð, þá þurfi þeir að fá það til baka annarstaðar. Óskuðu eftir að þá þurfa sjómenn annaðhvort að taka þátt í auðlindagjöldum eða greiða stærri hluta af slysatryggingunni. Þ.e útgerðarmenn eru ekki tilbúnir að sjómenn fái neinar kjarabætur.

Í minni vinnu fyrir félagsmenn VM hef ég séð hvernig útgerðarfélög starfa, þau beygja og sveigja reglur, þau setja ómælda vinnu og peninga í hagsmunagæslu og það sem ekki er bannað með lögum það má. Við þurfum að berjast gegn þessu ofríki útgerðarmanna.

 Ég vil hrósa félögum mínum hjá hinum stéttarfélögum sjómanna fyrir gott samstarf, stundum hefur blásið milli stéttarfélaga sjómanna, en mér finnst samstaðan góð um þessar mundir, félögin hafa náð að tala sig saman um megin kröfur og jafnvel hvaða leiðir er hægt að fara til þess að ná þessum kröfum saman. Stéttarfélögin lögðu t.d. fram sameiginlega tillögu til lausnar þessari deilu sem útgerðarmenn höfnuð. Ég er þess fullviss að ef við stöndum saman, alla leið, þá mun okkur farnast miklu betur fyrir okkar félagsmenn. Við eigum nefnilega miklu meira sameiginlegt en bara kjölinn undir skipinu.

Að mínu viti er komið að ögurstundu, ekki bara fyrir sjómenn heldur samfélagið allt. Spyrna verður við frekju útgerðarmanna, laga þarf kjör sjómanna, gera þarf upp á réttum verðum og fá sama mótframlag  greitt í lífeyrissjóð fyrir sjómenn og fyrir annað launafólk í landinu.

Þessir peningar eiga ekki að koma úr vasa sjómanna, þeir eiga að koma úr vasa útgerðarmanna.