30.4.2021

Það er nóg til!

Annað árið í röð og annað árið síðan 1923 getur íslenskt launafólk ekki safnast saman á 1. maí til að leggja áherslur á kröfur sínar. Samtök launafólks mun engu að síður bregðast við þessu og mun koma sínum kröfum á framfæri bæði í ljósvakamiðlum og samfélagsmiðlum.

„Það er nóg til“ er yfirskrift 1. maí að þessu sinni. Það er nóg til er orðatiltæki sem flestir Íslendingar þekkja og nota gjarnan þegar gest ber að garði. Fólki er boðið að njóta veitinga með viðkvæðinu „fáðu þér, það er nóg til“. En undirliggjandi meining er ekki síður „ekki vera feimin við að fá ykkur, við viljum deila með ykkur“.

En eru allir tilbúnir að gefa með sér? 

Heimsfaraldur Covid-19 veirunnar hefur haft alvarlegar efnahagslegar afleiðingar bæði hér á landi sem og erlendis. Ástandið hefur reynst bæði langvinnara og erfiðara viðureignar en búist var við í upphafi . Áhrif á einstakar atvinnugreinar hafa verið mismikil, bæði í tíma og afkomu, en ferðaþjónustan hefur farið verst út úr þessu. Þar er hægt að tala um hrun, enda ferðalög á milli landa svo til alveg lagst niður. Þetta hefur haft í för með sér aukið atvinnuleysi og eru allar tölur um atvinnuleysi nú hærri en við höfum séð í mjög langan tíma. Hefur atvinnuleysi farið úr 5,0% í febrúar 2020 í 12,8% í janúar 2021.

Nú þegar bólusetningar eru komnar á fullt hillir undir betri tíma. Von er til þess að hægt verði að aflétta öllum þeim samkomutakmörkunum sem við höfum búið við nú í rúmt ár. Þá förum við vonandi að sjá ákveðna viðspyrnu og minnkandi atvinnuleysi. Þá þarf jafnframt að vera tryggt að sú uppsveifla deilist réttlátlega út.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði nýlega í viðtali við Stundina „ Íslandi er að miklu leiti stjórnað af hagsmunahópum“ Einnig segir hann það séu í rauninni bar þrír aðilar á Íslandi sem eigi peninga í einhverju mæli. Það eru fjárfestar, útgerðarmenn og lífeyrissjóðir.

Það er eitt af brýnustu verkefnum verkalýðshreyfingarinnar á komandi misserum að arði þjóðarinnar sé deilt út á réttlátan hátt. Það er nefnilega nóg til. Það hefur komið fram í tölum Hagstofunnar um eignarstöðu Íslendinga að 10% ríkustu Íslendingarnir eiga meira af hreinum eignum en restin af þjóðinni. Einnig hefur komið fram á síðustu misserum að hagnaður margra fyrirtækja í sjávarútvegi og verslun eru að skila met hagnaði. Á sama tíma er atvinnuleysi í hæstu hæðum.

Já það er nefnilega nóg til.

Eitt af brýnustu verkefnum stéttarfélaga launafólks á næstu misserum er berjast fyrir réttlátum skiptum á arði þjóðarinnar á þjóðarauðlindum. Hér er ég að tala um fiskveiðiauðlindina okkar, orkuna okkar, vatnið og svæðin sem fara undir laxeldi. Að mínu mati eiga kröfur samfélagsins að vera þær að þau fyrirtæki sem fá að nýta þessar auðlindir skuli greiða almennileg laun og greiða sanngjarnan hluta til þjóðarinnar.   

Krefjumst réttlátra skipta – Það er nóg til.

Ég óska launafólki um allt land til hamingju með daginn.

Guðm. Helgi formaður VM