31.3.2021

Páskapistill 2021

Páskarnir eru að ganga í garð hjá okkur og kærkomið frí að hefjast fyrir flesta. Föstudagspistla skrif mín hafa dottið upp fyrir það sem af er árinu vegna anna. Bæði er mikið búið að vera að gera í samningagerð auk þess sem félagið flutti sig um set, frá Stórhöfða 25 og að Stórhöfða 29. Það þýðir að við erum komin í sama húsnæði og önnur iðnaðarmannafélög en markmið þessara flutninga er að samvinna félaganna aukist og ýmis konar stoðþjónusta verði samnýtt.

Unnið hefur verið hörðum höndum að nokkrum samningum í byrjun þessa árs. Við kláruðum samkomulag við Selfossveitur vegna hluta starfsmanna sem voru á sjálfsstæðum kjarasamning.

VM hefur setið nokkra samningafundi með SFS vegna vélstjóra á fiskiskipum, í síðustu viku var ljóst að ekki nást samningar nema með hjálp Ríkissáttasemjara en við höfum nú þegar vísað deilunni til hans. VM hefur setið við samningaborðið með Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur og Sjómannafélagi Íslands. Það var von mín að öll stéttarfélög sjómanna kæmu saman að samningaborðinu en ekki tókst það í þessari atrennu.

VM hefur komið að vinnu við styttingu vinnuvikunnar í ÍSAL en í þeim kjarasamning sem nú er í gildi og rennur út í maí 2021 var kveðið á að samningsaðilar ættu að vera tilbúin með útfærslur sem fara inn í næsta kjarasamning. Hefur sú vinna gengið með miklum ágætum.

Enn er mikill kraftur í gerð vinnustaðasamninga og hefur félagið komið að tugum samninga sem taka á styttingu vinnuvikunnar auk annarra þátta. Við hvetjum trúnaðarmenn eða aðra félagsmenn að hafa samband við félagið ef pælingar um vinnustaðasamninga eru í gangi á ykkar vinnustað.

Enn á eftir að klára stofnanasamning við Hafrannsóknarstofnun vegna vélstjóra á skipunum þar. Þetta mál er búið að vera lengi í vinnslu hjá okkur, en því miður höfum við ekki enn fundið samningsvilja hjá stjórnendum Hafrannsóknarstofnunnar til að klára þetta mál, vonandi finnum við viljann eftir páska.

Covid ástandið truflar okkur hér eins og annarsstaðar, tekin var ákvörðun að vísa fólki ekki frá orlofskostum félagsins en einnig að ekki yrði endurleigt þeim kostum sem skilað var inn. Við brýnum fyrir öllum okkar félagsmönnum að passa upp á samkomutakmarkanir og sóttvarnir. Við sjáum núna að veiran er á uppleið og því mikilvægt að passa sig vel.

Ég hvet félagsmenn til að skoða rétt sinn í sjóðum félagsins. Bæði sjúkra- og fræðslusjóður félagsins eru til þess að hjálpa félagsmönnum.

Á árinu 2021 hefur alls verið greiddar 48 milljónir úr sjúkrasjóði VM þar af voru rétt tæplega 32 milljónir af þeim greiddar í sjúkradagpeninga.

Að lokum óska ég ykkur gleðilegra páska – förum varlega um hátíðina.

Guðm. Helgi formaður VM