24.12.2020

Er það réttlátt?

Á þessum fordæmalausu tímum, hversu oft höfum við heyrt eða lesið þessi orð á síðustu dögum og misserum. Það er líka ljóst að ekkert okkar hefur upplifað svona tíma áður. Það þarf að leita allt til 1918 þegar Spánska veikin geisaði til þess að finna hliðstæðu. En Spánska veikin er mannskæðasta farsótt sögunar og deyddi um 25 milljónir manna og sumir tala um mun hærri tölur eða allt að 40 milljónir. Ég spyr mig hvernig væri ástandið núna ef við hefðum aðeins þau meðul og ráð sem við höfðum þá, værum við þá að tala um svipaðar tölur. Við getum svo sannarlega þakkað okkar frábæra heilbrigðisfólki og þeirri aðstöðu sem við höfum að hversu vel hefur gengið hjá okkur.

Kórónuveirufaraldurinn hefur ekki bara haft heilsufarslegar afleiðingar, efnahagsáhrif hafa orðið mjög miklar. Víða eru áhrifin mikil en mest sýnileg hjá ferðaþjónustunni og má segja að ferðaþjónustan í þeirri mynd sem við þekktum hafi lagst niður um allann heim með tilheyrandi áhrifum.

Nú erum við hins vegar farin að sjá í ljósið við enda ganganna, bóluefnið tilbúið og bólusetning hefst vonandi upp úr áramótum og nú þegar byrjuð í sumum löndum. Vonandi getum við reiknað með eðlilegra ástandi þegar líður á vorið.

Eitt er þó sem við ættum alltaf að spyrja okkur að þegar uppbygging hefst eftir niðursveiflu. Hvernig viljum við hafa hlutina. Var þetta allt frábært hjá okkur eða er möguleiki að gera betur?

Er auðæfum okkar örugglega rétt skipt, eru allir við sama borð?

Við lok árs 2016 var eigið fé 1% lands­manna sem mest­ar eign­ir áttu 19,2% af eig­in fé allra lands­manna og eigið fé 5% lands­manna sem mest­ar eign­ir áttu var 43,5% af eig­in fé allra lands­manna. Er það réttlátt? Þá stendur til að létta skattbyrði á þeim allra ríkustu í samfélaginu með því að hækka frítekjumark fjármagnstekna úr 150 þúsund í 300 þúsund og láta það ná til arðgreiðslna og söluhagnaðs. Aðgerð sem kostar ríkissjóð um milljarð á ári, á sama tíma og Landspítalinn þarf að hagræða um 4 milljarða. Er það réttlátt? Og á sama tíma er Félag eldri borgara að krefjast þess að Alþingi fari að lögum og hækki ellilífeyrinn um 15.750 kr. eins og aðrir fá um næstu áramót, en ekki um 9.244 kr. eins og stendur til. Er það réttlátt?

Gera þarf átak til þess að uppræta brotastarfsemi á vinnumarkaði sem hefur viðgengist alltof lengi, sérstaklega hjá lágtekjufólki og erlendu vinnuafli. Það að standa ekki við gerða samninga er launaþjófnaður og á ekki að líðast. Að atvinnurekendur get komist upp með það aftur og aftur að fara ekki eftir þeim lögum og reglum sem settar eru er ólíðandi. Oft eru það sömu einstaklingarnir sem eru að svindla á fólki, bara á nýrri kennitölu þó að sami einstaklingurinn sé á bakvið fyrirtækið. Það er í raun ótrúlegt hvað pólitíkinni gengur illa að koma sér saman um það að taka á þessu mikla réttlætismáli launafólks.

Það er ljóst að við getum breytt hlutunum ef við viljum. Ég trúi því ekki að áherslan eigi að vera að hygla þeim 5% sem mest eiga umfram aðra. Við eigum að mynda samstöðu um að byggja upp sanngjarnt þjóðfélag, þjóðfélag sem tekur tillit til allra.

Að lokum vil ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og góðs gengis á nýju ári.

Jólakveðja

Guðm. Helgi Þórarinsson formaður VM