20.11.2020

Föstudagspistill formanns 20.11.2020

Í morgun bárust þær fréttir frá ríkisstjórninni að breyta ætti skattkerfinu á þá leið að frítekjumark vaxtatekna ætti að hækka úr 150.000 í 300.000 á ári. Þ.e að ekki þurfi að greiða fjármagnstekjuskatt af fyrstu 300.000 þúsundum sem einstaklingar hafa í vaxtatekjur. Á þessi breyting að kosta ríkissjóð um 770 milljónir á ári.

Það er merkilegt að á sama tíma les maður í fjölmiðlum að jólabónus aldraða og öryrkja er tekin til baka í einhverjum tilfellum með sköttum og skerðingum, jafnvel þannig að nettó skiptir hann engu máli fyrir fólk, buddan er jafn tóm og hún var fyrir.

Það er auðvitað alveg makalaust að í árferði eins og því sem nú er þar sem atvinnuleysi er hátt og nauðsynjavörur hafa hækkað mikið að hluta til vegna falls krónunnar að ríkisstjórnin ætli að lækka skatta á þá sem mest hafa á milli handana. Ég vona innilega að ríkisstjórnin falli frá þessum áformum sínum og komi þessum 770 milljónum frekar til fólks sem þarf virkilega á þeim að halda. Í ríku samfélagi eins og Ísland er á fátækt ekki að vera til.

Af öðrum málum er það að frétta að í næstu viku fer fram sjóréttur vegna atviksins á Júlíusi Geirmundssyni ÍS. Skipstjóri, útgerðastjóri og framkvæmdastjóri útgerðarinnar hafa lýst því yfir að þeir ætli ekki að tjá sig í réttinum. Þetta er fordæmalaust mál og ég trúi því ekki að menn ætli að haga sér eins og þeir segjast ætla að haga sér. Um borð í skipinu var spilað með heilsu sjómanna, ef menn sjá að sér þá hjálpa þeir til við að upplýsa málið, svo að hægt sé að læra á því til framtíðar.

Það er mikilvægt að þegar mál sem þetta kemur upp að menn biðjist afsökunnar, en það er enn þá mikilvægara að menn meini eitthvað með afsökunarbeiðninni og vilji læra af henni.

Á undanförnum vikum hefur náðst árangur að fækka Covidsmitum í samfélaginu, núna þurfum við að klára þetta saman, svo að jól og áramót verði á sem eðlilegasta máta.

Ég óska ykkur góðrar helgi.

Guðm. Helgi formaður VM