6.11.2020

Föstudagspistill formanns 06.11.2020

Í síðustu viku brann mest á okkur hér á skrifstofu VM málefni Júlíusar Geirmundssonar og ótrúlega framkomu útgerðirnar. Benti ég þar á grein eftir Heiðrúnu Lind framkvæmdarstjóra SFS sem ber heitið Sjávarútvegur og samfélagið. Þar segir hún meðal annars :

„Sem hluti af samfélaginu ber fyrirtækjum að leita leiða til að draga úr neikvæðum áhrifum og auka þau jákvæðu. “

Í fréttatilkynningu sem stéttarfélög sem eiga aðild að málinu voru að senda frá sér kemur m.a. fram.

„Útgerðin Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf. hefur neitað að afhenda skipsdagsbók Júlíusar Geirmundssonar ÍS 270 fyrir sjópróf sem mun fara fram vegna hópsmits um borð í togaranum. Skylda útgerðarinnar til að afhenda skipsdagbókina er skýr samkvæmt siglingalögum. Útgerðin ber fyrir sig persónuverndarsjónarmiðum. Stéttarfélög skipverja telja þessa afstöðu útgerðarinnar fordæmalausa, óeðlilega og á skjön við lögmælta skyldu. Skylda til að afhenda skipsdagbók í sjóprófi er skýr enda um að ræða helsta samtímagagn um atburði um borð í skipinu. Tregða útgerðarinnar hefur þegar leitt til tafa á að sjópróf geti farið fram, en dómari hafði upphaflega boðað að þau færu fram 6. nóvember.“

Ef útgerðir geta ráðið hvenær þær afhendi skipsdagbókina þá er það gagn algjörlega tilgangslaust. Skipsdagbókin er það gagn sem á að varpa ljósi á alla atburði sem koma upp á um borð í skipi hverju sinni. Ef það gagn sem á að varpa ljósi á atburði eins og þann sem gerðist um borð á Júlíusi Geirmundssyni er orðið leyndarmál, að það sé háð duttlungum útgerðarinnar hvenær má afhenda hana hvort ekki sé orðið algjörlega tilgangslaust að halda skipsdagbók. Enn einu sinni halda útgerðarmenn að þeir séu hafnir yfir lög og reglur, ég á þetta, ég má þetta. Yfirlýsing framkvæmdastjóra SFS sem vísað er í hér að ofan virðist bara eiga við á orði en ekki á borði. Þegar átti að fara að rannsaka málið og skoða það hvað hafði brugðist í verkferlum mætum við lögfræðingum sem beit öllum klækjum til þess að hindra eðlilegan framgang málsins.

Þá vil ég nefna að við höfum verið að funda með samninganefnd sveitafélaganna um þann samning og vinnuna í kringum starfsmöt sem unnin eru um störf okkar manna. Störf okkar félagsmanna hafa breyst mikið hjá sveitarfélögunum á undanförnum árum. Margir af okkar félagsmönnum sem vinna hjá sveitarfélögum vinna á skipum og bátum á höfnum sveitarfélaganna, þessi skip og þessir bátar orðið öflugari og því meiri menntunar krafist á fjölmörgum stöðum. Kjör þeirra hafa ekki breyst í takt við þessar auknu kröfur.

Að lokum vil ég skora á alla og hlíða þríeykinu og ferðast innanhús þessa helgina og ef við þurfum að fara út þá að nota grímur. Þvoum hendur og sprittum og náum smitunum niður.

Megið þið öll eiga góða helgi.

Guðm. Helgi formaður VM