30.10.2020

Föstudagspistill formanns 30.10.2020

Á heimasíðu hagsmunasamtaka útgerðarmanna er núna verið að kynna nýja samfélagsstefnu, einkunnarorð stefnunnar eru „ábyrgur sjávarútvegur í sátt við umhverfi og samfélag“.

Þar er talað um nokkur atriði t.d hvernig við aukum gagnsæi í sjávarútvegi og þau leggja áherslu á heilsu og öryggi starfsfólks og vilji vinna markvisst að því að draga úr hættu við vinnu og í starfsumhverfi.

Einnig kemur fram í grein eftir Heiðrúnu Lind framkvæmdarstjóra sem ber heitið Sjávarútvegur og samfélagið eftirfarandi:

Til að greina áhrif fyrirtækja á umhverfi, samfélag og efnahag þarf að eiga sér stað samtal við helstu hagaðila. Það þarf að hlusta og leitast við að skilja og ræða mismunandi skoðanir; samtalið skerpir skilninginn. Með þeim hætti tekst vonandi að draga fram hvað megi gera betur og hvernig. Sem hluti af samfélaginu ber fyrirtækjum að leita leiða til að draga úr neikvæðum áhrifum og auka þau jákvæðu. Hluti af þeirri vinnu grundvallast á stefnu sem sækir fyrirmyndir í alþjóðlega viðurkennd viðmið, lög og venjur. Það verður með öðrum orðum að vera trúverðug stefna sem menn hyggjast fylgja.“

Stundum veit maður ekki hvort eigi að hlægja eða gráta.

Það væri gaman ef einhverjar efndir fylgdu þessum orðum. Stéttarfélög sjómanna hafa ítrekað á síðustu árum óskað eftir meiri gagnsæi í verðlagsmálum án árangurs. Þar hefur umræðan um uppsjávarfisk borið hæðst.

Hvað heilsu og öryggi starfsfólks varðar þá höfum við ítrekað bent á baráttu útgerðarmanna um fækkun í áhöfn með tilheyrandi vinnuálagi og frívöktum þar sem hvíldartímareglur eru margbrotnar.

Þá vil ég sérstaklega nefna útgerð Júlíusar Geirmundssonar ÍS sem þverbraut allar reglur vegna covid smits eins og flestir vita. Í því tilviki var heilsu skipverja stefnt í voða, en  heilsan er eitt það mikilvægasta sem við eigum. Það má ekki líðast að útgerðarmenn komist upp með slíka háttsemi. Það er nefnilega þannig að sumum útgerðarmönnum finnst þeir hafnir yfir lög og reglur. Ég á þetta ég má þetta.

Þessi staða sem upp er komin er óboðleg, ef hagsmunasamtökum útgerðarmanna er einhver alvara að vilja bæta samband sitt við samfélagið, sjómenn og stéttarfélög þeirra þá láta þau af því að verja brotamennina í greininni. og fari að vinna að heillindum. Þessum aðilum hefur verið treyst fyrir auðlind þjóðarinnar og það er ekki bara eðlilegt heldur á það að vera krafa frá okkur öllum að þau hagi sér í samræmi við það.

Kjarasamningar sjómanna eru lausir eins og allir sjómenn vita, það verður forvitnilegt að sjá hvort hagsmunasamtök þeirra komi með eitthvað vitrænt að samningaborðinu við allra fyrsta tækifæri, eitthvað sem sýnir í verki að þau vilji skapa traust. Ekki bara á milli sjómanna og útgerðarmanna heldur almennings alls í landinu.

Af öðrum kjarasamningaviðræðum er það að frétta að á fimmtudagskvöld skrifaði samninganefnd starfsfólks álversins í Straumsvík undir kjarasamninga við samninganefnd Rio Tinto á Íslandi hf. Efni kjarasamninganna verður nú kynnt starfsfólki sem fær í kjölfarið tækifæri til að greiða atkvæði um endanlegt gildi þeirra. Að baki er löng og ströng samningalota. Sá árangur sem nú hefur náðst er tilkominn vegna þeirrar ríku samstöðu og hvatningar sem samninganefndin hefur notið frá starfsfólki álversins í öllu því ferli.

VM vísaði kjaradeilu sinni við Selfossveitur í síðustu viku til Ríkissáttasemjara, við bíðum  eftir að vera kallaðir að borðinu þar enda hefur hluti okkar félagsmanna ekki fengið sömu kjarabætur og annað launafólk í landinu. Það verður að laga strax.

Ég vona að þið farið varlega um helgina.

Guðm. Helgi formaður VM