11.9.2020

Föstudagspistill formanns 11.09.2020

Föstudaspistillinn fékk frí í síðustu viku, ástæðan var annasöm vika þar sem hæst bar framhaldsaðalfundur félagsins sem haldinn var s.l fimmtudag á Grandhótel Reykjavík.

Einnig var sú vika annasöm vegna kjaramála, fundað var í tveimur deilum hjá ríkissáttasemjara en það eru annarrsvegar vegna vélstjóra á Hafrannsóknarskipum og hinsvegar vegna félagsmanna okkar hjá álverinu í Hafnarfirði. Við funduðum einnig með Félagi skipstjórnarmanna þar sem félögin unnu sameiginlega að umsögn um frumvarp um íslenska alþjóðlega skipaskrá en í enn eitt skiptið eru íslensk stjórnvöld að reyna að koma á koppinn íslenskri alþjóðlegri skipaskrá. Árið 1987 voru 39 kaupskip á íslenskri skipaskrá en 17 árum seinna eða árið 2004 var síðasta íslenska skipið tekið af skránni og flutt undir erlendann fána. Í dag eru flest íslensku skipin skráð í Færeyjum en þar eru um 80 kaupskip skráð í dag.  Einnig var farið yfir frumvarp til laga um áhafnir skipa þar sem VM, FS og SSÍ standa saman að umsögn, vilja félögin leggja áherslu á það að horft verði til verkefna skipanna en ekki einungis til lágmarsksmönnunar til þess að sigla frá A til B.

Það er ekki hægt að segja það beint að minni annir hafi verið þessa vikuna, báðar þessar kjaradeilur héldu áfram og var aftur fundað hjá Ríkissáttasemjara vegna álversdeilunar. Fundað var með stofnunni sjálfri í deilunni við Hafrannsóknarstofnun, auk þess sem fundað var með trúnaðarmönnum okkar hjá Landhelgisgæslunni í vikunni, en sá samningur er einnig laus.

Eitt af stærri verkefnum fyrri hluta ársins 2020 var vinnutímastytting félagsmanna okkar á hinum almenna vinnumarkaði, mörg fyrirtæki kláruðu þá vinnu fyrir sumarfrí. Það er okkar tilfinning að þau fyrirtæki sem eftir eiga að stytta vinnutímann séu að fara af stað þessa dagana.

Eitt af þeim verkefnum skrifstofunnar sem ávallt er ofarlega á verkefnalistanum er verðlagning á sjávaraðfurðum síðustu vikur höfum við legið yfir útflutningsverði á rækju. Það er merkilegt í mínum huga að verð til sjómanna eru að lækka, þrátt fyrir að útflutningsverð standi í stað á milli ára samkvæmt útflutningsskýrslum Hagstofunnar, það sýna okkar greiningar. Tölur og gögn virðast því miður skipta minna máli en „spádómar“ útgerðamanna.

Það er varla hægt að skrifa pistill þessa dagana nema að minnast á makrílverð, íslensk fyrirtæki eru að greiða frá tæpum 59 kr á kg og upp í rúmar 68 kr á kg á meðan Færeyingar eru að greiða frá 110-130 kr á kg og Norðmenn rúmar 150 kr á kg. Það er ólíðandi að það muni tugum milljóna á afurðarverðum eftir því í hvaða landi landað er, ef við á miðum við 1000 tonna farm þá geta þetta verið allt að 80 milljónir.

Að lokum vil ég taka undir ályktun sem ungir jafnaðarmenn sendu frá sér um síðustu helgi, þar sem sést greinilega á málflutningi þeirra að þau hafi tekið eftir málflutningi okkar í vetur, þegar þau segja „Með milli­verðlagn­ingu á sjáv­ar­af­urðum flytja sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki hagnað sinn til lág­skattalanda og lækka þannig skipta­hlut sjó­manna og kom­ast hjá eðli­leg­um skatt­greiðslum á Íslandi,“ og bæta meira að segja í og segja „Ætla má að ís­lenskt sam­fé­lag verði af gríðarleg­um fjár­mun­um vegna þess­ara aðferða sem verður best lýst sem ráni um há­bjart­an dag.“

 

Ég óska ykkur góðrar helgi.

Guðm. Helgi

Formaður VM