18.9.2020

Föstudagspistill 18.09.2020

Enn er komið að föstudagspistli, vikurnar fljúga frá okkur hér á skrifstofu VM.

Fundað var í kjaradeilu vegna starfsmanna í álverinu í Hafnarfirði í vikunni. Ég get ekki sagt annað en að útspil Río tinto og SA á þeim fundi hafi verið mikil vonbrigði, það eina sem starfsmenn fyrirtækisins eru að fara fram á sömu hækkanir og voru í lífskjarasamningunum. Endaði það þannig að stéttarfélögin lýstu yfir árangursleysi á fundinum. Það þýðir að undirbúningur verkfallsboðunar hefst á allra næstu dögum. Það er umhugsunarvert að forráðamenn álversins virðast lítið hreyfa sig í kjaraviðræðum fyrr en okkar fólk er á leiðinni í verkfall. Einnig áttum við fund með Landhelgisgæslunni vegna stofnannasamningsins félagsmanna okkar þar. Erfiðlega gengur að ná fram einhverju í þessum samningaviðræðum enda bendir stofnunin og samninganefnd ríkisins á hvort annað þegar við förum yfir kröfur okkar. Það sem er líka erfitt er að félagsmenn okkar hjá Landhelgisgæslunni hafa ekki sama rétt og flestir aðrir á vinnumarkaði, en það er verkfallsvopnið. 

Í gær var trúnaðarráð félagsins kallað saman vegna endurskoðunarákvæðis í kjarasamningum sem er í gildi fram til 31. september. Tilgangur fundarins var að kanna hug félagsmanna til hvort þau telji að forsendur samninga séu brostnar. Á fundinn mætti Henný Hinz deildarstjóra hagdeildar ASÍ til þess að fara yfir forsendur samninganna. Trúnaðarmannaráð samþykkti einróma að samningnum yrði ekki sagt upp. Mun formaður félagsins fara á formannafund ASÍ í næstu viku þar sem hann fer með nesti af þessum fundi um skoðun félagsmanna VM á forsenduákvæði kjarasamninganna.

Einnig hefur félagið hafið stefnumótunarvinnu og á fundinum var kynnt könnun meðal félagsmanna um hin ýmsu mál. Verður þessi könnun nýtt til áframhaldandi stefnumótunarvinnu en vinnuheiti vinnunnar er “Hvert stefnir VM?”. Þetta er vinna sem er á byrjunarreit og mun halda áfram í vetur í samvinnu starfsmanna og félagsmanna.

Það er alltaf gott og gagnlegt fyrir okkur á skrifstofu VM að hitta trúnaðarmenn og aðra félagsmenn. Það er frábært fyrir okkur að fá skoðanir félagsmanna fram á fundi sem þessum. Félagið er jú fyrir ykkur félagsmenn.

Fyrir utan þessi stóru mál vikunnar var auðvitað mikið annað á skrifstofunni. Við hjá VM höfum síðustu vikur haft samband við iðndeildir framhaldsskólanna og gefið þeim sloppa og galla til verklegrar kennslu. Það er að mínu mati gott verkefni, enda bæði kynning fyrir okkar félag og gott að nemendur séu vel búnir í verklegri kennslu.

Ég óska ykkur góðrar helgi.
Guðm. Helgi formaður VM