28.8.2020

Föstudagspistill 28.8.2020.

Eitt af stærri verkefnum vikunnar hér af skrifstofu VM er án efa kjaradeila starfsmanna álversins í Hafnarfirði og Rio Tinto. Fyrsti samningafundur deilunnar var hjá sáttasemjara í vikunni, fyrirtækið mætti með tómt blað á þann fund. Það verður að viðurkennast að starfsmenn hafa óþol fyrir því að kjör þeirra virðast vera notuð til þess að reyna að ýta niður orkuverði fyrirtækisins. Næsti fundur deilunnar er föstudaginn 4. september.

Á borði ASÍ í vikunni var þrýstingur vegna atvinnuleysisbóta. Það er ánægjuefni að tekjutenging bóta hafi verið aukin í 6. mánuði úr 3. mánuðum, en einnig teljum við hjá VM að hækka eigi lægstu bætur. Aldrei gott að vera með atvinnuleysisbætur það lágar að það sé útilokað fyrir fólk að draga fram lífið á þeim. Það leikur sér engin að vera án vinnu.

Það er ánægjulegt fyrir VM og félagsmenn okkar að þrátt fyrir þetta mikla atvinnuleysi á vinnumarkaði þá er lítið atvinnuleysi meðal félagsmanna okkar, það er í raun þannig að meira er hringt og spurt hvort við vitum um lausa menn en að haft sé samband vegna uppsagna.

Eins og allir vita eru skólanir að byrja um þessar mundir, VM hefur haft samband við alla skóla landsins sem kenna okkar greinar og boðist til að stykja skóla um sloppa við verklega kennslu. Hefur þessu uppátæki verið vel tekið. Það er gott að geta hjálpað til með það góða starf sem fer fram í skólum landsins.

Ég vil minna á framhaldsaðalfund VM sem verður haldin fimmtudaginn 3. september á Grand hótel. Vegna ástandsins í þjóðfélaginu þarf að skrá sig á fundinn á skrifstofu félagsins í gegnum síma eða í tölvupósti.

Ég óska ykkur góðrar helgi.

Guðm. Helgi formaður VM.